Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sænska þjóðin í uppnámi eftir heimildarmynd

Mótmæli gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í París í október 2017. - Mynd: EPA / EPA

Sænska þjóðin í uppnámi eftir heimildarmynd

11.04.2019 - 16:16

Höfundar

Ég hafði aldrei heyrt um Josefin Nilsson þegar ég ákvað að horfa á heimildarmynd um hana sem sænska ríkissjónvarpið hefur nú í sýningu. Það eina sem ég vissi var að myndin setti af stað einhvers konar atburðarás sem leiddi til þess að leikhússtjóra leikhússins Dramaten í Stokkhólmi var sagt upp.

Josefin Nilsson fæddist 1969. Pabbi hennar var tónlistarmaður og sjálf stofnaði hún hljómsveit með systur sinni og tveimur vinkonum þeirra, sem þær kölluðu Ainbusk. Þær slógu rækilega í gegn og fljótlega gekk gamla kempan Benny Andersson til liðs við þær sem lagahöfundur. Ef marka má viðmælendurna í myndinni snerti hún flest hjörtu sem komust í kynni við hana djúpt. Hún var bæði hlý og skemmtileg, þrátt fyrir að líf hennar hafi alls ekki verið dans á rósum. Josefin lést 2016, 46 ára að aldri.

Ég hafði aldrei heyrt um þessa söngkonu áður, hafði engin tengsl við söguna né tónlistina, en þegar líða tók á myndina var ég farin að hágráta.

Veggurinn brotnaði og hryggjarliðirnir líka

Um miðjan tíunda áratuginn átti hún í ástarsambandi við þekktan leikara, en það var ekki fallegt samband. Hann beitti hana hræðilegu ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. Í eitt skipti fleygði hann henni í vegg með þeim afleiðingum að veggurinn brotnaði. Hryggjarliðir hennar líka. Hann sendi henni ógeðsleg skilaboð þar sem hann kallaði hana ljóta, feita, hæfileikalausa og hótaði henni frekara ofbeldi. Hún þurfti að hafa lífvörð með sér utandyra. Árið 1997 var leikarinn var dæmdur fyrir ofbeldið en áfrýjaði og fékk þá skilorðsbundinn dóm.

Ég hafði aldrei heyrt um Josefin Nilsson áður en ég horfði á heimildarmyndina um hana. Það var átakanlegt að sjá muninn á þessari lífsglöðu, skapandi, hamingjusömu og geislandi konu í upphafi myndar og þeirri sem syngur lokalagið. Hún er orðin þrútin, stíf og hárlaus vegna lyfjagjafa. Hafði notað morfín til að deyfa verkina í áratugi. „Hann drap hana,“ hugsaði ég „hann drap hana, smátt og smátt, og komst upp með það.“

Auðvitað er samt ekki hægt að sanna neitt – þannig. Kannski var hún bara með slæman hrygg, lélegan líkama. Kannski var það bara þess vegna sem þurfti að skipta hryggjaliðum hennar út fyrir títan og svo mjaðmakúlunni líka og þess vegna sem hún komst ekki í gegnum daginn án verkjalyfja. Þess vegna sem hún þorði ekki úr húsi án lífvörslu.

Mynd með færslu
 Mynd: Tony Webster - Wikimedia commons
Sænska leikhúsið Dramaten Stokkhólmi

Havaríið í Dramaten Stokkhólmi

7500 manns söfnuðust saman fyrir utan leikhúsið eftir að heimildamyndin um Josefin Nilsson var frumsýnd. 7500 manns kröfðust þess að leikarinn – sem var ekki nafngreindur í myndinni en allir vissu hver var – yrði rekinn. Hann fer með hlutverk í einni af stærri sýningum leikhússins um þessar mundir. Ég fletti upp sýningunni. Það er ekki flókið að komast að nafninu, en ég ætla að láta það liggja milli hluta í þetta sinn. Þarna var mynd af honum, en þegar ég smellti á myndina kom upp villumelding: Síðan er ekki til.

Ég heyrði sögu um daginn af leikhúsmanni nokkrum, sænskum, sem var eiginlega bannfærður í sænsku leikhúslífi vegna þess að hann fór yfir siðferðismörk þjóðarinnar í námi. Hann var í kúrsi í leikhúsdeild listaháskólans í Stokkhólmi, þar sem nemendunum var gert að rannsaka börn í samhengi við kynlíf, hugmynd þeirra um kynlíf, eitthvað svoleiðis. Hann brá á það ráð að lesa upp úr erótískri skáldsögu fyrir hóp leikskólastúlkna. Það sér náttúrlega hver maður að þetta er tæp pæling, en hann var einhvern veginn alveg sósaður í þessum kúrsi, þar sem nemendurnir voru hvattir til þess að fara út fyrir þægindarammann.

Þegar hann var svo kominn út á vígvöllinn, búinn að gera eitthvað óþægilegt og óforskammað, þá var ekki neitt að gera nema vísa honum á dyr. Enginn gat tekið upp hanskann fyrir hann án þess að leggja blessun sína yfir verknaðinn. Ég veit ekki hvort það er hægt að afsaka það eitthvað, að lesa upp kynlífslýsingar fyrir börn, en listin verður samt sem áður að hafa einhvers konar verkrými, ekki satt? Þess má geta að téður leikhúsmaður starfar í Noregi um þessar mundir og nýtur þar ágætismeðbyrs.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Leikkonan Julia Dufvenius er ein af þeim sem hefur gagnrýnt Dramaten harðlega.

Á að aðskilja listamann frá list?

En við vorum að tala um Dramaten. Svo virðist sem leikarinn hafi verið látinn fjúka. Leikarinn ástsæli sem lúbarði kærustuna sína og braut hana niður andlega á tíunda áratugnum og lengi eftir að sambandi þeirra lauk, er – eða var þar til nú – á fljúgandi siglingu á sínum ferli. En skiptir það máli? Eiga mistök manns í einkalífinu að hafa áhrif á feril hans? Hver er munurinn á að leikarinn fái vinnu og að horfa á Woody Allen myndir eða hlusta á tónlist eftir Michael Jackson, er þetta ekki bara list? Hvers vegna þarf að vera að blanda einstaklingunum saman við listsköpunina? Munurinn hér er kannski sá að leikhúsið er ekki bara svið, heldur líka vinnustaður.

Leikkonan Julia Dufvenius er ein af þeim sem hefur gagnrýnt Dramaten harðlega. Í löngu viðtali við Dagens Nyheter segir hún frá því að í kjölfar „metoo“ hefði leikari sem hún nafngreinir ekki farið að spyrjast fyrir um hana. Hann spurði hvort hún væri í húsinu og leitaði að henni. Hann hafði þekkt sig í einni af sögunum. Hún fylltist ofsahræðslu og hafði samband við stjórn leikhússins, sagðist vera hrædd við að koma til vinnu. Hvernig ættu þau að leysa það? Þau lögðu til að hún fengi fylgd til og frá sviðinu. Leikarinn sem um ræðir var þá ekki starfandi við leikhúsið.

Leikkonan hefur gagnrýnt stjórnina harðlega opinberlega, og sagt hana ekki hafa sýnt vilja til að takast á við þöggun og niðurrifsmenningu innan vinnustaðarins. Þegar leikhússtjórinn tók ákvörðun um að ráða manninn til starfa á nýjan leik, þá tók Dufvenius sér hlé frá störfum.

Ofbeldi verður ekki liðið lengur

Dramaten er gamalt leikhús, með þunga sögu, veggirnir eru mettaðir af fornri hírarkíu, þessu lýsa bæði leikarar og aðrir aðstandendur leikhússins.

Eftir að heimildarmyndin um Josefin Nilsson var sýnd í sænska ríkissjónvarpinu 22. mars boðaði menningarmálaráðherra Svíþjóðar, Amanda Lind, stjórn leikhússins á fund. Hún hefur verið skýr í afstöðu sinni til þöggunar og meiðandi kúltúrs innan menningarbransans. Á blaðamannafundi á mánudag tilkynnti stjórnin svo um brottrekstur leikhússtjórans, Eriks Stubø. Aðstoðarleikhússtjórinn, Maria Groop Russel, tók við keflinu samstundis.

Mörgum dóminókubbum hefur verið stillt upp frá því Josefin Nilsson leitaði réttar síns árið 1997 en var barin aftur niður. Sagan hafði lítil áhrif á feril leikarans sem hún kærði og slapp með skilorð. Þegar Josefin Nilsson stóð uppi í réttarsal árið 1997 og sagði frá, þá sagði enginn „me too.“

En #metoo-byltingunni, sem hófst tuttugu árum síðar, hefur sannarlega tekist að hrista stærstu stöpla sænsku menningarelítunnar. Skemmst er að minnast skandalsins innan sænsku akademíunnar, nú er það Dramaten, hvað verður næst? Boðskapurinn er að ofbeldi verður ekki liðið lengur.

Svanasöngur Josefinu

Í lok heimildamyndarinnar syngur Josefin Nilsson lag, upptakan er líklega frá því skömmu áður en hún lést. Hún spyr: Mun heimurinn minnast mín, þegar ég er farin? Er einhvers staðar til sönnun fyrir því að ég hafi verið til? Skipti tilvera mín, þessa stuttu stund, einhverju máli?

Allir vissu… allir vissu en enginn gerði neitt. Josefin Nilsson lést, kvalin og hrædd. Ári síðar hófst metoo-hreyfingin.

Og í dag minnist þjóðin sannarlega Josefin Nilsson

Tengdar fréttir

Pistlar

Ábyrgðarlaus nálgun á trans fólk

Pistlar

Hver á skilið ofurlaun?

Umhverfismál

Barneignir og umhverfismál

Umhverfismál

Sjáið þið ekki að keisarinn er allsber?