Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sækúm við strönd Sækúasýslu bjargað frá Irmu

11.09.2017 - 05:47
This photo provided by Michael Sechler shows a stranded manatee in Manatee County, Fla., Sunday, Sept. 10, 2017. The mammal was stranded after waters receded from the Florida bay as Hurricane Irma approached. (Michael Sechler via AP)
Önnur tveggja sækúa sem komst hvorki lönd né strönd þegar skyndilega fjaraði undan henni við strönd Sækúasýslu í Flórída. Mynd: AP
Fellibylurinn Irma varð til þess að svo hratt fjaraði undan tveimur sækúm upp undir Flórídaströndum að þær urðu strandaglópar, sækýr á þurru landi, og hefðu að líkindum drepist í fjörunni ef ekki hefði verið fyrir nokkra velviljaða menn sem komu þeim til bjargar.

Irma veldur ekki einungis sjávarflóðum við þær strendur sem hún fer yfir, heldur framkallar lágþrýstingurinn víða meira útfiri en áður hefur sést, jafnvel lengra en augað eygir frá þeim stöðum sem heimamenn eru vanir að standa við fjöruborðið á háfjöru. Fjölmargir hafa notað tækifærið til að ganga um þessi annars óaðgengilegu svæði.

Nokkrir vinir fengu sér göngutúr í fjörunni undan Sækúasýslu (Manatee County) og rákust þar á tvær af þeim miklu skepnum sem sýslan er kennd við. Önnur þeirra virtist vart draga andann en hin var eilítið líflegri. Skvettu vinirnr vatni á sækýrnar til að létta þeim lífið en sáu ekki fram á að geta bjargað þeim, enda engar smáskepnur þarna á ferð. Vinirnir birtu myndir og frásögn af þessu á Facebook og var henni deilt víða.

Skömmu síðar kom vösk sveit björgunarfólks á vettvang sem tókst að koma segldúkum undir sækýrnar og draga þær út í sjó, um hundrað metra frá strandstað. Ekki er vitað annað en að sækúnum tveimur frá Sækúasýslu heilsist nú ágætlega. 

Hér má sjá myndskeið frá björguninni. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV