Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sækja sjódælu til að bleyta andarnefjurnar

16.08.2018 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Sverrir Tryggvason
Unnið er að því að flytja sjódælu út í Engey til að dæla vatni yfir tvær andarnefjur sem eru fastar í fjörunni. Hátt í tíu manns eru komnir í eyjuna til að reyna að halda lífi í dýrunum þar til flæðir að. Nú er mesta fjara en á næstu klukkutímum fer að flæða aftur að, þó verður ekki hásjávað fyrr en eftir klukkan átta í kvöld.

Skipstjóri á hvalaskoðunarskipinu Rósinni frá Special Tours kom auga á andarnefjurnar þar sem þær voru ósjálfbjarga í fjörunni við Engey síðdegis. Sverrir Tryggvason brunaði ásamt tveimur öðrum á rib-báti út í Engey til að hjálpa dýrunum. Erfiðlega gekk að komast að þeim. „Ég lét bara bátinn reka upp í fjöru þar sem fjaraði undan honum. Við stukkum í land. Það blæddi dálítið úr dýrunum. Þau eru þurr, það er ekki lengur vatn undir þeim,“ segir Sverrir Tryggvason

Fljótlega bættust tveir í hópinn og nú eru átta til níu manns frá Special Tours og Eldingu úti i Engey að hjálpa dýrunum. Þar eru sjávarlíffræðingar, líffræðingar, skipstjórar og fleira fólk sem reynir að halda þeim lifandi fram að flóði segir Sverrir.

„Okkur hefur tekist að halda þeim blautum. Við erum búin að þekja þau lökum og handklæðum. Það er fullt af fötum hér, við berum sjó í fötum að þeim. Dýrin eru alveg á þurru eins og kannski sést á myndbandinu. Það er á leiðinni sjódæla þar sem við getum dælt sjó á þau. Svo á bara eftir að koma í ljós hvernig gengur að koma þeim út.

Mynd: Sverrir Tryggvason / Sverrir Tryggvason
Á myndbandi sem Sverrir Tryggvason tók má sjá andarnefjurnar tvær í suðurenda Engeyjar og fólk sem kom þeim til aðstoðar.

Talið er að andarnefjurnar hafi verið að elta makríl þegar þær lentu í ógöngum.

Fullvaxnar andarnefjur geta verið þrjú til þrjú og hálft tonn að þyngd. Tarfarnir verða átta til níu metrar en kýrnar sjö metrar að lengd. Hásjávað verður eftir kvöldmat, á bilinu átta til miðnættis.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV