Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, ætlar ekki að gefa kost á sér í forystu Bjartrar framtíðar í sveitarstjórnarkosningum í vor. Hún greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.
Guðlaug tók við embætti stjórnarformanns flokksins í september en lét af því embætti tveimur mánuðum síðar, stuttu eftir slakt gengi flokksins í alþingiskosningum. Fram kemur í færslunni að síðan þá hafi hún haldið ótrauð áfram í starfi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar en verið hugsi um áframhaldandi starf undir merkjum Bjartrar framtíðar að loknu þessu kjörtímabili. Nú skilji leiðir.