Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

SA hafnaði gagntilboði verkalýðsfélaga

15.02.2019 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Samtök atvinnulífsins höfnuðu í morgun gagntilboði VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Grindavíkur og Verkalýðsfélags Akraness. Tilboð stéttarfélaganna var svar þeirra við tilboði SA, sem samkvæmt heimildum fréttastofu, hljóðar upp á 20.000 króna hækkun á mánaðarlaun sem eru lægri en 600.000 krónur. Mánaðarlaun yrði hækkuð um 20.000 krónur árlega í þrjú ár. Hækkun á hærri laun á, samkvæmt tilboðinu, að vera 2,5 prósent.

Deiluaðilar funduðu hjá ríkissáttasemjara í morgun. „Það sem farið var yfir hér í dag, við teljum að það geti aldrei orðið grunnur að kjarasamningi,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. „Kallað hefur verið eftir aðkomu stjórnvalda að þessari deilu. Sá grunnur og sú nálgun sem við höfum beitt, hjá Samtökum atvinnulífsins, er að skilgreina það svigrúm sem við teljum að sé til launahækkana sem við metum sem svo að sé forsenda þess að stjórnvöld komi að lausn þessara kjaraviðræðna.“

Slíta viðræðum ef innlegg stjórnvalda er slæmt

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að nú ætli verkalýðsforystan að ráða ráðum sínum. „Það sem er mikilvægast núna er að stjórnvöld einhendi sér í vinnuna um það hvað þau eru tilbúin til þess að gera til þess að það sé hægt að koma hér á kjarasamningi því að ef að það mun ekki gerast þá er alveg ljóst að það mun draga til tíðinda í næstu viku og við munum slíta viðræðum ef ekkert kemur frá stjórnvöldum sem að mun skipta máli,“ segir hann. Verði viðræðunum slitið er næsta skref að hefja undirbúning að því að boða til verkfalls. 

Telur ekki nóg að lágmarkslaun verði 350.000 krónur

Samkvæmt tilboði SA hefðu lægstu laun orðið 350.000 krónur á samningstímanum. Vilhjálmur segir alls ekki hægt að fallast á slíkt. Fólk þurfi að gera framfleytt sér og lifað með mannlegri reisn. Þá sé hægt að gera ýmislegt annað til að auka ráðstöfunartekjur, til dæmis lækka skatta á lægstu laun, hækka barnabætur, lækka vexti og afnema verðtryggingu. 

SA og fulltrúar verkalýðsfélaganna fjögurra funda næst um miðja næstu viku.