Rýmingaráætlanir í stöðugri endurskoðun

21.02.2017 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri Almannavarna segir að beðið sé nýrra upplýsinga um flóðahættu í Vík í Mýrdal. Sveitarstjórinn í Vík segir í minnisblaði sem var lagt fyrir hreppsnefnd í síðustu viku, að nánast ekkert raunhæft hafi verið gert með opinbera skýrslu sem sýnir að hamfarahlaup í Kötlugosi gæti náð til þorpsins sjálfs.

Niðurstöður athugunarinnar, sem Vegagerðin lét gera, lágu fyrir 2014. Samkvæmt þeim gæti hamfarahlaup úr Mýrdalsjökli náð til Víkur. Þetta er aðeins einn möguleiki sem byggir á ákveðnum forsendum sem verkfræðingarnir gáfu sér, raunverulegt flóð gæti náð yfir minna eða stærra svæði.

Hvers vegna er þetta mál ekki komið lengra en raunin er?
„Mér þykir nú miður ef fólk fær á tilfinninguna að það sé ekkert verið að gera í fyrsta lagi. En á móti kemur að við erum að vinna í þessu, þetta er uppi á borði hjá okkur og við erum svona að afla ákveðinna upplýsinga. Af hverju hefur það ekki gerst síðan 2014 spyrja sumir. Það má kannski segja að við erum að við erum að fá þetta nýjasta sem er í gangi núna. Það er svo sem engin frétt að allt er búið að vera á hreyfingu þarna síðan í haust. Við viljum bara hafa nýjustu upplýsingar uppi á borðinu, það er ástæðan.“

Hvernig er hægt að bregðast við, er verið að hugsa um einhverja varnargarða?
„Já. Fyrsta hugsun okkar er hjá íbúunum fyrir austan. Það er að segja að þeir geti verið eins rólegir og hægt er með jökulinn við gaflinn hjá sér, og þannig að þeirra umhverfi sé eins öruggt og hægt er.“

Þarf eitthvað að uppfæra rýmingaráætlanir út af þessum niðurstöðum?
„Þetta er lifandi pappír og það er alltaf í endurskoðun. Ef niðurstaðan er sú að það þurfi að endurskoða rýmingaráætlun þá er það gert. En við skulum bíða og sjá hvað kemur út úr þessum nýjustu upplýsingum sem við erum sannarlega að vinna með núna.“

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi