Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rýming vegna Kötlugoss flóknari

28.07.2017 - 12:42
Mynd með færslu
Ferðamenn á Sólheimajökli væru í hættu yrði eldgos Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Endurskoðun viðbragðsáætlunar vegna Kötlugoss er ólokið. Dagleg umferð um svæðið hefur margfaldast og því þarf að leysa á annan hátt hvert flytja á fólk. Þá þarf að breyta lokunum vega og þétta fjarskiptasamband.

Sérstök viðbragðsáætlun er í gildi um Kötlugos og má finna hana á ýmsum tungumálum á vef Almannavarna.  Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi segir að gera þurfi nokkrar breytingar vegna aukins ferðamannafjölda: 
  
„Þannig að við þurfum að finna lausnir á því hvernig við rýmum og hvert við sendum fólk. Sú vinna gengur ágætlega og verður búin svona á næstu misserum.“

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn. 20. júlí 2017.
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi

Lögreglan hefur ákveðið í samvinnu við Vegagerðina og staðkunnuga hvar skuli loka svæðum í kringum Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul vegna flóðahættu.

„Það yrði alltaf lokun hér við Hvolsvöll. Og við erum með lokun svo austur við Kirkjubæjarklaustur. Svo erum við með lokun ja við Vík, sitthvorum megin við Vík líka þannig að við séum ekki að setja fólk á flakkið nema að það sé undir eftirliti.“

Póst- og fjarskiptastofnun gerði úttekt á farsímasambandi og unnið hefur verið að því með Neyðarlínunni og fjarskiptafyrirtækjum að þétta í þau göt sem fundust. Þá er verið að bæta tetratengingar. Farsímaband við hin fjölsótta Sólheimajökul hefur verið slæmt en það mun hafa verið lagfært að einhverju leyti. Almannavarnir nota sms-skilaboð til að vara fólk á svæðinu við. Sms-skilaboð ná lengra og þurfa minni tengingu er símtöl. Daglega eru um 500 til 700 manns við Sólheimajökul og 5000 til 7000 manns í Reynisfjöru að talið er. Rýmingarsvæðið er jafnstórt og áður en fjöldinn meiri og því þarf að finna nýjar fjöldahjálparstöðvar.  

„Við erum kannski sérstaklega í vandræðum eins og með Vík þar sem að inn á Vík sjálfri eru um 1100 manns sem gista á hverri nóttu eða fleiri, íbúar milli fjögur og 500. Og þá höfum við aðeins verið í vandræðum með hvað eigum við að gera við það umfram fólk sem er á hótelunum, því hótelin eru neðarlega. Og því fólki þarf að koma í burtu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Helgi Valsson - RÚV
Allt að 7000 ferðamenn koma daglega í Reynisfjöru