Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rýma allt svæðið norðan Dyngjujökuls

19.08.2014 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Almannavarnir hafa ákveðið að rýma allt svæðið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringa í Bárðabungu. Jarðskjálftahrynan er sú stærsta í Vatnajökli frá upphafi mælinga. Enn er óvíst hvort eldgos verður.

Lokunin nær frá þjóðvegi 1 suður að Dyngjujökli. Lögreglan á Húsavík og Seyðisfirði hefur þegar lokað leiðum inn á hálendið og almannavarnir hafa lýst yfir hættustigi á hálendinu norðan Dyngjujökuls. Um 800 skjálftar hafa mælst við Bárðarbungu í dag og eru skjálftarnir í hrinunni orðnir um 3500 frá því að hún hófst. Viðlíka hrina hefur aldrei mælst áður við Bárðarbungu. 

Verði gos skiptir talsverðu máli hvar kvikan kemur upp. Jökullinn þynnist eftir því sem lengra dregur í norðaustur. Nái kvikan yfir höfuð að komast upp á yfirborðið minnka líkur á stórflóði eftir því sem nær dregur jökulröndinni. Gosið kæmi fyrr upp úr jöklinum, vatnið færi hraðar undan honum, en jafnframt myndi minni ís bráðna og valda flóði.

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, segir að reynslan sýni að þegar kvika sé á meira en 5 kílómetra dýpi, eins og hún sé nú, geti ástandið verið tiltölulega stöðugt. En þegar grynnri skjálftar mælist geti atburðarásin orðið hröð. „Það er tvennt í stöðunni. Þessi kvika kemst í þrýstingsjafnvægi í skorpunni og það verður ekkert gos. Eða hún verður óróleg áfram og finnur sér farveg upp á yfirborð og það verður gos,“ segir Kristín.