Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ryanair rekur flugstjóra

16.08.2013 - 02:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair rak í dag flugstjóra fyrir að koma fram í heimildaþætti um öryggismál flugfélagsins sem Channel4 sjónvarpsstöðin sýndi í vikunni.

Flugstjórinn, John Goss að nafni, hafði starfað hjá Ryanair í 25 ár og átti að fara á eftirlaun í október. Flugfélagið hefur stefnt honum og sjónvarpsstöðinni fyrir meiðyrði. Heimildaþátturinn byggði á könnun meðal 1000 flugmanna félagsins sem var lekið til stöðvarinnar. Í henni kom fram að svo til allir flugmenn félagsins vilja að írska flugmálastjórnin taki öryggismál flugfélagsins til ítarlegrar skoðunar. Í þættinum var meðal annars fjallað um atvik í fyrrasumar þegar þrjár Boeing-vélar frá Ryanair urðu að nauðlenda í Valencia á Spáni á sama korterinu þar sem eldsneytið var á þrotum. Vélarnar voru á leið til Madrid en gátu ekki lent þar vegna þrumuveðurs.