Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

RÚV fær lítinn skerf af sölu sýningarréttar

20.12.2015 - 19:44
Um áramót taka gildi lög sem takmarka möguleika Ríkisútvarpsins til að afla tekna með sölu auglýsinga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur sagt að aukin framleiðsla á íslensku efni hjá RÚV muni skila auknum auglýsingatekjum og tekjum af sölu á þessu efni til annarra landa. RÚV framleiðir hins vegar sjálft það efni sem metið er eingöngu til heimabrúks. Þá fá Innlendir framleiðendur bróðurpartinn af sölu sýningarréttar utan Íslands.

 

Samkvæmt fjárlögum verður útvarpsgjaldið óbreytt en RÚV fær 175 milljónir. Að því er fram kemur í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar við nýsamþykkt fjárlög er viðbótarframlaginu ætlað til að auka kaup RÚV á efni frá sjálfstæðum framleiðendum hér á landi. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að með þessari lausn væri verið að bæta í.  „Sérstaklega í framleiðslu á íslensku efni, auk þess sem ekki má gleyma því að það mun skila auknum auglýsingatekjum og jafnvel sölu á þessu efni til Norðurlandanna, Þýskalands og annarra landa. Þannig á heildina litið verða þetta miklu meiri tekjur en þessar 175 milljónir.“ 

Samkvæmt upplýsingum frá RÚV framleiðir það sjálft efnið sem metið er að nýtist hins vegar eingöngu til heimabrúks. Þar má nefna Vikan með Gísla Marteini, Söngvakeppnin, Landinn, Áramótaskaupið og Kiljan sem erlendar sjónvarpsstöðvar hafa ekki sýnt áhuga á.

Í þeim tilvikum þar sem efni er keypt frá sjálfstæðum, innlendum framleiðendum, s.s leiknum sjónvarpsþáttaröðum, er hlutur RÚV í heildarframleiðslu yfirleitt ekki mikill - á bilinu 10 til 20 prósent. Hitt kemur í gegnum styrki, meðal annars úr kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Þannig lagði RÚV til 9 prósent fjármagnsins af Ófærð sem kostaði rúman milljarð en framleiðslukostnaður við minni þáttaraðir er á bilinu 150 til 200 milljónir. 

Innlendu framleiðendurnir fá því yfirleitt bróðurpartinn af sölu sýningarréttar til útlanda ef slíkt er fyrir hendi og þær upphæðir sem fást fyrir slíkan sýningarrétt eru yfirleitt ekki háar, samkvæmt upplýsingum frá RÚV. Til að fá hlutdeild í slíkri sölu þyrfti RÚV því að leggja meira fjármagn í hvert keypt efni.

Fram kemur í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar að áætlað sé að með viðbótarframlaginu verji RÚV 625 milljónum í keypt efni frá sjálfstæðum framleiðendum.  Þessi tímabundna fjárveiting skekki samkeppnisstöðu innlendra ljósvakamiðla enn frekar.

Í nefndarálitinu segir að það hljóti að verða skoðað „sérstaklega hvort skynsamlegt sé að koma á fót sjálfstæðum dagskrárgerðarsjóði til að efla innlenda dagskrárgerð sem yrði að stærstum hluta fjármagnaður með útvarpsgjaldi.“

Nauðsynlegt sé að stuðla að jafnræði á fjölmiðlamarkaði og ýta undir valddreifingu og fjölbreytni í dagskrárgerð. Óumdeilt sé frá menningarlegu sjónarmiði „að efla innlenda dagskrárgerð, jafnt í útvarpi sem sjónvarpi, og að löggjafinn geti tryggt það án þess að afleiðingin verði aukinn kostn­aður fyrir ríkissjóð eða hækkun gjalda sem eru lögð á einstaklinga og lögaðila.“

Þá beinir meirihlutinn því til menntamálaráðherra að í nýjum þjónustusamningi ráðuneytisins og RÚV verði ákvæði um stighækkandi útboðsskyldu vegna dagskrárefnis á samningstímanum.