Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rútur raska ró íbúa og slökkviliðs

11.06.2018 - 20:13
Rútur, meðal annars frá Airport direct,á planinu við Skógarhlíð 10.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Aukin umferð langferðabíla á rútustæði við Skógarhlíð hefur haft truflandi áhrif á íbúa í nágrenninu. Einn þeirra segir bíla þar á ferð á öllum tímum sólarhrings sem hafi raskað svefnfriði. Slökkviliðið óttast að þessi aukna umferð tefji forgangsakstur bíla.

„Það var líklega í vikunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem fór að bera á þessu örlítið. Svo allt í einu fyllist planið hérna, 10-15 rútur að meðaltali á álagstímum,“ segir Gissur Páll Gissurarson íbúi í Eskihlíð 10. Hann og aðrir íbúar í Eskihlíð hafa undanfarið kvartað yfir auknu ónæði af mikilli umferð rútubíla um Skógarhlíð 10, sem er aðeins nokkra metra frá gafli blokkarinnar.  

„Þetta er galið, sérstaklega þar sem þetta er svona um miðjar nætur. Milli klukkan fimm og sex á morgnana er mesta álagið en allan daginn er þetta mjög mikið. Hljóðmerkin sem heyrast þegar rúturnar bakka eru síðan góður fylgifiskur og þetta raskar svefnfriðnum. Þetta er ekki eitthvað sem þú vilt setja í íbúðabyggð.“

Íbúarnir hafa sent erindi til borgarinnar, sem hefur sett málið í ferli. En Gissur telur að besta lausnin sé að flytja starfsemina annað. „Það gefur auga leið að ef ég set upp rútustöð eða eitthvað í þeim dúr í botnlanga í Garðabæ þá yrði ég fjarlægður eins og skot, þó að botnlanginn væri við jaðar byggðarinnar.“

Slökkviliðið hefur áhyggjur

En það eru ekki aðeins íbúar í nágrenni við rútuplanið sem hafa kvartað yfir stöðunni. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur sent Reykjavíkurborg erindi þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum af því að rútuumferð geti tafið fyrir forgangsakstri hjá slökkviliðs- og sjúkrabílum.

„Við höfum í nokkrum tilvikum þurft að setja í gang sírenur og læti til að komast framhjá rútum. En það er erfitt að víkja þarna, það er þröngt, þannig að þetta er bagalegt fyrir okkur,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Jón Viðar hefur áhyggjur af stöðunni, nú þegar aðalferðamannatíminn fer í hönd. „Rúturnar eru mun stærri, það er erfiðara að fara til hliðar og víkja, þannig að því stærri sem bílarnir eru, því erfiðara fyrir okkur.“

Innkeyrslur mögulega brot á deiliskipulagi

Málið er líka til skoðunar á tveimur stöðum í borgarkerfinu. Björn Axelsson skipulagsfulltrúi segir í skriflegu svari til fréttastofu að engar takmarkanir séu á rútustarfsemi á svæðinu. Því sé ekki að sjá að skipulagslegar forsendur, hvorki í aðal- né deilidkipulagi, sem banni starfsemina. „Öðru máli gegnir um innkeyrslur inn á lóðina sem virðast ekki vera í samræmi við skipulag þegar horf er  til  staðsetningar, stærðar og umfangs  og mögulega um óleyfisframkvæmd að ræða.  Skilmáladeild byggingarfulltrúa Reykjavíkur hefur verið upplýst um það,“ segir í svarinu. Þá kemur jafnframt fram að erindi slökkviliðsins verði skoðað gaumgæfilega eins fljótt og auðið er.

Heilbrigðiseftirlitið er líka með málið til skoðunar, einkum með tilliti til hljóðvistar í íbúahverfi. Samkvæmt upplýsingum þaðan virðist við fyrstu sýn sem starfsemi sé starfsleyfisskyld. Málið sé þó enn til rannsóknar. Sú rannsókn mun því væntanlega leiða í ljós hvort sækja þurfi um sérstakt leyfi fyrir þeirri starfsemi sem þarna er.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV