Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Rústir frá landnámi við Lækjargötu

10.06.2015 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rústir húss frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar fundust við fornleifauppgröft í Lækjargötu þar sem var bílastæði Íslandsbanka. Fundurinn kemur á óvart því ekki var vitað að þar hafi verið landnámsbyggð. Gripir sem fundust benda til þess að húsið hafi verið mannabústaður.

Reisa á hótel á lóð Íslandsbanka við Lækjargötu. Vitað var, út frá rituðum heimildum, að þar var torfbærinn Lækjarkot í kringum aldamótin 1800. Byrjað var að grafa í apríl til að reyna að finna Lækjarkot og var fljótlega komið niður á hleðslur bæjarins. Síðan var haldið áfram að grafa og var þá komið niður á eldri minjar.

Lisabet Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands segir að það hafi komið skemmtilega á óvart að þarna hafi fundist eldri minjar.

Fundist hafa gripir eins og snældusnúður úr klébergi, perla og brýni sem gefa til kynna að húsið hafi verið mannabústaður. Snældusnúða úr klébergi var ekki að finna hér á landi eftir 1150. 

Vitað er um landnámsbyggðir þar sem nú er Suðurgata og Aðalstræti en ekki var vitað til þess að byggð næði svona langt í austur.
 
Ekki er ennþá vitað hvernig húsið er í laginu því einungis hluti þess hefur verið grafinn upp. 

Lisabet segir að í torfvegg þar megi sjá landnámsgjóskuna sem féll í kringum 871. „Svona landnámstorf er að finnast svona 100 ár eftir að landnámsgjóskan féll - 100 til 200 ár.“

Stærra svæði verður opnað á næstu vikum til að fá alla bygginguna fram og þá kemur í ljós hve stór hún er og hvernig stéttirnar í kring tengjast henni.
Lisabet segir að ekki sé ólíklegt að rústirnar séu frá  fyrstu öldum íslandsbyggðar.

    

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV