Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rússneskar sprengivélar óvenju oft á NATOsvæði

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Utanríkisráðherra segir að ótilkynnt flug rússneskra sprengjuflugvéla inn á eftirlitssvæði NATO við Ísland geti truflað almennt flug. Óvenjulegt sé að Rússar fljúgi herflugvélum í tvígang inn á svæðið með stuttu millibili. Loftrýmisgæslan hafi sannað mikilvægi sitt. 

Sama dag og Rússar fögnuðu því að fimm ár væru liðin frá innlimum Krímskaga, 18. mars síðastliðinn - flugu tvær rússneskar sprengjuflugvélar inn á loftrýmiseftirlitssvæði NATO við Ísland án þess að láta vita af sér. Sagan endurtók sig svo í fyrradag. Innlimum Krímskaga markaði upphaf aukinna hernaðarumsvifa Rússa á norðurslóðum. Ríki Atlantshafsbandalagsins hafa brugðist við með því að styrkja varnarviðbúnað í Evrópu, meðal annars með heræfingum hér á landi.

Óvenjulegt er að rússneskum herflugvélum sé flogið inn á loftrýmiseftirlitssvæðið við Ísland með svo stuttu millibili. Það gerðist einu sinni í fyrra og aldrei í hitteðfyrra, samkvæmt upplýsingum úr utanríkisráðuneytinu. Rússnesku vélarnar flugu ekki inn í íslenska lofthelgi en létu ekki vita af sér þegar þær flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið. Í bæði skiptin sem þetta gerðist í þessum mánuði var  tveimur orrustuþotum ítalska flughersins, sem eru hér á landi við loftrýmisgæslu, flogið til móts við rússnesku vélarnar.

„Þetta er til marks um aukin umsvif Rússa á þessu svæði. Það sem gerist þarna að rússnesku vélarnar koma án þess að láta vita og svara ekki kalli í talstöðvar og annað slíkt. Þannig að hlutverk ítölsku vélanna var að auðkenna þær og fylgja þeim af svæðinu. Þetta getur truflað borgaralegt flug því það er oft á tíðum í svipaðri hæð og viðkomandi flug rússnesku vélanna en vegna þess að við erum með þetta fyrirkomulag, bæði loftrýmiseftirlitið og loftrýmisgæsluna, þá skapast ekki nein hætta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Voru þeir eitthvað nálægt íslenskri lofthelgi?

„Ég get ekki sagt nákvæmlega hvar þeir voru,“ segir Guðlaugur.

Ekki fæst uppgefið nákvæmlega hvert er loftrýmiseftirlitssvæði NATO en ljóst er að það er stórt.