Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rússneskar herflugvélar nærri Íslandi

23.04.2014 - 21:14
Erlent · Innlent · Evrópa
A Quick Reaction Alert (QRA) Typhoon F2 from Number XI Squadron at RAF Coningsby is pictured escorting a Russian Bear-H aircraft over the North Atlantic Ocean.
 Mynd: Crown Copyright - RAF
Breskar orrustuþotur voru fyrr í kvöld sendar á móti tveimur rússneskum herflugvélum sem voru á flugi skammt norðaustur af Skotlandi. Stjórnstöð NATO á Íslandi var kunnugt um ferðir vélanna.

Flugvélarnar, sem eru af gerðinni Tupolev 95 og eru oft kallaðar Birnir, eru taldar hafa lagt upp frá bækistöðvum á Kólaskaga í norðvestanverðu Rússlandi og flogið þaðan suður eftir Atlantshafi í átt að Norðursjó.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var fylgst með vélunum með samþættu loftvarnakerfi NATO og því vissi stjórnstöðin hér af ferðalagi þeirra. Vélarnar komu ekki inn á íslenska hluta loftrýmiseftirlitssvæðis NATO.

Þegar þær voru komnar fast að bresku lofthelginni, nærri norðausturströnd Skotlands, ákváðu bresk stjórnvöld að senda orrustuþotur á móti þeim. Þotur frá Danmörku og Hollandi voru einnig ræstar út. Birnirnir tveir sneru þá við og héldu aftur til norðurs, meðfram Skandinavíu.

Vélarnar voru allan tímann á alþjóðlegu flugsvæði og í fullum rétti. Ferðalag þeirra vekur samt ugg vegna ólgunnar í Úkraínu.

Í gær tilkynnti Pútín Rússlandsforseti að hann hygðist stórauka hernaðarviðbúnað á norðurslóðum, meðal annars með því að setja flotastöðvar hersins undir sameiginlega stjórn. Ferðir rússneskra sprengjuflugvéla um Norður-Atlantshaf, eins og í dag, gætu þannig orðið tíðari, en slíkar vélar hafa annað veifið gert sig heimakomnar nærri Íslandsströndum.