Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Rússneska flugvélin dregin í stæði

24.07.2013 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Rússneska farþegaþotan sem brotlenti á Keflavíkurflugvelli á sunnudagsmorgun var flutt af brautarenda flugbrautar 29 í gærkvöldi. Frá þessu segir á vef Víkufrétta. Uppblásnir púðar voru settir undir vængi vélarinnar, henni þrýst upp og reynt að koma hjólum hennar niður.

Það dugði ekki til, enda vélin 30 tonn, og því þurfti að hífa vélina upp í böndum kranabíla. Það tók fjórar klukkustundir að koma hjólunum undir vélina. Þá var hún tengd við rafmagn til þess að virkja hjólabúnaðinn. Síðan var hún dregin í stæði með dráttarbíl.

Nokkrar skemmdir eru á búk vélarinnar en hreyflar hennar skemmdust mest. Á vef Víkurfrétta segir að fagnaðarlæti hafi brotist út þegar hjólin komu í ljós enda mikið í húfi fyrir eigendur vélarinnar. Einnig að hrósa megi þeim sem að verkinu stóðu sem aldrei höfðu áður flutt 30 tonna flugvél með þessum hætti og vel hafi tekist til.