Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rússlandsrannsókn færist nær Trump

epa06321754 US President Donald J. Trump is seen reflected in a glass panel as he takes his leave after a group photograph with fellow APEC leaders at the 25th Asia-Pacific Economic Cooperation (APEC) summit in Da Nang, Vietnam, 11 November 2017. The APEC
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rannsókn sérstaks saksóknara á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra er komin ansi nærri forsetanum. Samkvæmt fréttastofu Reuters hefur annar tveggja kosningastjóra forsetans verið yfirheyrður. Saksóknari vill vita hversu mikið forsetinn vissi um samskipti starfsmanna framboðs hans við rússnesk yfirvöld.

Starfsmenn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara bandarískra yfirvalda, hafa yfirheyrt Sam Clovis, sem gegndi hlutverki kosningastjóra Donalds Trumps. Samkvæmt fólki sem segist kunnugt rannsókninni er stærsta spurningin í rannsókn Muellers hvort frambjóðandinn, og síðar forsetinn, Trump vissi af samskiptum starfsliðs síns við Rússa. Þá vill Mueller vita hver samþykkti samskiptin eða stýrði þeim.

Clovis gaf skýrslu fyrir kviðdómi í rannsókn Muellers í lok október, og þá hefur hann einnig veitt rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings upplýsingar um málið. Einn heimildarmanna Reuters segir Clovis enn einn bitann í púsli rannsakenda á meintum afskiptum Rússa af kosningunum.

Fyrrum ráðgjafi kosningaframboðs Trumps í utanríkismálum, George Papadopoulos, hefur þegar játað að hafa átt í nánum samskiptum við Rússa. Rannsakendur vita hverjum hann sagði frá samskiptum sínum, en nú vilja þeir vita hvort Clovis fór lengra með vitneskju sína af fundum Papadopoulos, og þá hvert.

Reuters fékk hvorki svör frá Hvíta húsinu né skrifstofu Muellers þegar leitað var eftir staðfestingu fregnanna. 
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV