Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Rússland á borði utanríkismálanefndar

14.08.2014 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Innflutningsbann Rússa, þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi og ástandið í Úkraínu var rætt á fundi utanríkismálanefndar Alþingis með utanríkisráðherra fyrir hádegi. Ráðherrann segir ekkert nýtt í málinu síðan Rússar settu innflutningsbann á nokkur ríki en ekki Ísland í síðustu viku.

Birgir Ármansson, formaður utanríkismálanefndar segir hana hafa farið yfir stöðu mála með utanríkisráðherra, meðal annars varðandi þær þvingunaraðgerðir sem Ísland hafi tekið undir og hafi verið ákveðnar af Evrópusambandinu og öðrum bandalagsþjóðum Íslands.

„Hins vegar vorum við auðvitað líka að ræða þessa stöðu sem upp kom í síðustu viku þar sem Rússar beita Evrópusambandsríki og Norðmenn viðskiptaþvingunum varðandi matvælaafurðir fyrst og fremst sem snerta okkur ekki. Við vorum líka að velta fyrir okkur  þróun mála í Úkraínu og hættunni á að átök þar stigmagnist og þar af leiðandi herði enn á samskiptum vestrænna ríkja og Rússlands og veltum fyrir okkur afleiðingum þess,“ segir Birgir.

Fyrir rétt rúmri viku bönnuðu Rússar innflutning matvæla frá ríkjum Evrópusambandsins og Noregi, en ekki Íslandi.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir ekkert nýtt í stöðunni, Ísland sé enn utan bannlistans.

„Við eigum engar viðræður um það við Rússa, ég veit ekkert af hverju við ættum að eiga það. Allir vita afstöðu Íslands í þessu máli,“ segir Gunnar Bragi. 

Birgir Ármannsson segir að Rússar verði að svara því af hverju Ísland er ekki á bannlistanum. Íslendingar eigi ekki sérstaklega að hafa frumkvæði að því að leita svara við því: 

„Þetta eru aðgerðir sem snerta okkur ekki. Ef til þess kemur að Rússar grípa til einhverra aðgerða sem snerta okkur þá auðvitað eigum við við þá samtöl um það. En við erum ekkert að sækjast eftir því að komast á þennan lista,“ segir Birgir.