Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rússar sagðir færa Talibönum vopn

25.07.2017 - 05:14
In this Friday, May 27, 2016 photo, members of a breakaway faction of the Taliban fighters walk during a gathering, in Shindand district of Herat province, Afghanistan. Mullah Abdul Manan Niazi said Sunday, May 29, 2016 he was willing to hold peace talks
Afganskir talibanar. Mynd: AP
Talibanar í Afganistan hafa endurnýjað vopnabúr sitt að undanförnu, að því er virðist með aðstoð rússneskra stjórnvalda. Myndbönd sem bandaríska sjónvarpsfréttastöðin CNN komst yfir benda til þessa.

Bandarískir hershöfðingjar greindu fyrst í apríl frá áhyggjum sínum af því að Rússar hygðust færa Talibönum vopn. Tvö myndbönd sem CNN birtir á vef sínum sýna tvo mismunandi vígahópa Talibana, annan í norðurhluta Afganistans og hinn í vesturhlutanum. Myndböndin sýna hópana með þungavopn sem þeir segjast hafa fengið frá innanbúðarmönnum frá rússneskum stjórnvöldum. Þá greindi annar hópur frá því að hann hefði fengið vopnin án greiðslu við landamærin að Tadjikistan.

Myndböndin eru langt frá því að vera sannanir fyrir því að Rússar færi Talibönum vopn. Engu að síður styrkja þau málstað Bandaríkjahers, sem hefur gagnrýnt Rússa fyrir vopnaviðskiptin. Rússnesk stjórnvöld þvertaka fyrir að hafa nokkuð með endurnýjun vopnabúrs Talibana að gera. Þau segja fréttirnar einfaldlega rangar, og til þess gerðar að fela klúður Bandaríkjanna í Afganistan. Einu samskiptin sem Rússar eigi við Talibana séu til að koma af stað friðarviðræðum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV