Rússar hætta líka í kjarnorkusamkomulagi

02.02.2019 - 09:51
epa07049000 Russian President Vladimir Putin looks on during a working meeting in the Novo-Ogaryovo residence outside Moscow, Russia, 26 September 2018.  EPA-EFE/MICHAEL KLIMENTYEV/SPUTNIK/KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ætlar einnig að hætta í tímamótasamkomulagi Bandaríkjanna og Rússlands um meðaldræg kjarnorkuvopn. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti það í gær að Bandaríkin styddu ekki lengur samkomulagið enda hefðu Rússar þverbrotið það.

Samkomulagið var gert árið 1987 í kjölfar fundar Ronalds Reagan og Mikaíl Gorbatjov í Höfða 1986. Það batt enda á kapphlaup stórveldanna um að koma sér upp vopnabúri með meðaldrægum kjarnorkuvopnum á sínum tíma.

Pútín vísaði til ákvörðunar Trumps þegar hann kynnti afstöðu sína í dag. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi hafa um langt skeið þráttað um þennan samning; ásakanir um brot á honum hafa gengið á báða bóga.

Samningurinn var undirritaður 1987. Á þeim tíma höfðu Rússar og Bandaríkjamenn staðið fyrir gríðarlegri uppbyggingu á skammdrægum og meðaldrægum eldflaugum í austur- og vesturhluta Evrópu. Eftir að samningurinn gekk í gildi, var meira en tvö þúsund eldflaugum af þessari gerð grandað, undir eftirliti sérfræðinga frá Rússlandi annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar.

Þróun nýrra vopna hefur hins vegar grafið undan þessum samningi og ríki sem á þeim tíma voru ekki stórveldi, og ekki aðilar að samningnum, eins og Kína, hafa komið sér upp vopnum af þessu tagi. Þessi staða telja reyndar margir að sé helsta ástæða þess að stjórnvöld í Washington vilja segja samningnum upp: til að geta betur svarað vopnauppbyggingu Kínverja í og við Kyrrahafið. Rússar hafa reyndar einnig kvartað undan ákvæðum þessa samnings, af sömu ástæðum. 

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi