Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rússar byggja upp her

09.08.2017 - 07:08
Mynd með færslu
Frá herstöðinni á Schmidt-höfða. Myndin er tekin árið 2009. Mynd: Wikimedia - Wikimedia Commons
Rússar vinna nú hörðum höndum að því að opna aftur nokkrar her- og flotastöðvar á og við Norður-Íshaf og stækka og efla aðrar. Herstöðvarnar sem ýmist er verið að stækka eða opna á ný eftir áralanga lokun eru minnst tíu talsins og dreifast á jafnmargar eyjar og odda með Rússlandsströnd og rússneskum hluta hinnar svokölluðu Norðausturleiðar um Norður-Íshafið.

Þarna er verið að byggja upp og bæta aðstöðu sem fyrst og fremst á að nýtast rússnesku landamæragæslunni, flotanum og strandgæslunni, en sjóbjörgunarsveitir og jafnvel útvalin skipaþjónustufyrirtæki sem þjóna kaupskipaflotanum munu einnig njóta góðs af.

Nýlega var Nagurskoye-her- og flotastöðin á Alexöndrueyju við Frans Jósefs-land tekin aftur í notkun, eftir að búið var að byggja þar nýja, 14.000 fermetra byggingu sem rúmar allt að 200 hermenn og landamæraverði. Nagurskoye er vestarlega á Norðausturleiðinni.

Við austurenda hennar, á  Schmidt-höfða, er mikil og hröð uppbygging í gangi. Þar er búið að reisa sjö nýjar byggingar og minnst sautján til viðbótar eiga að rísa í ár, auk þess sem búið er að lengja aðalflugbraut stöðvarinnar úr 2.500 metrum í 3.000. 

Svipaða sögu er að segja af átta, minni stöðvum á milli þessara tveggja, þótt uppbyggingin þar sé heldur minni umfangs enn sem komið er. 

Um þetta er fjallað í dönsku fréttaveitunni Arktisk Nyt, sem sérhæfir sig í fréttum af Norðurskautssvæðinu, eins og nafnið ber með sér.
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV