Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Rúnir misnotaðar í gegnum tíðina

Mynd með færslu
 Mynd:  - Lesstofan

Rúnir misnotaðar í gegnum tíðina

18.03.2018 - 15:08

Höfundar

Rúnir hafa verið misnotaðar í pólitískum tilgangi og orðið fyrir barðinu á grófu menningarnámi, segja höfundar Runes: The Icelandic Book of FUÞARK sem er einstök samantekt á þremur kerfum rúnaleturs. Bókinni er ætlað að nálgast viðfangsefnið á nútímalegan hátt en hún geymir auk rúnakerfanna ýmsan fróðleik um rúnir.

„Það eru til fjölmargar bækur um rúnir og rúnastafróf, sem margar hverjar bera keim af miðaldablæti og göldrum,“ segir Sigurður Oddsson hönnuður bókarinnar. Hann bætir því við að sérstaða bókarinnar sé að nálgast viðfangsefnið á nútímalegan hátt og ætlunin sé að hvetja folk til að sjá möguleikana til þess að nota rúnir í dag.

Rúnir aðgengilegar öllum

Sigurður lætur verkin tala en á Hönnunarmars fyrir ári síðan setti hann upp sýninguna Rúnamerki þar sem hann sneri þekktum vörumerkjum yfir á rúnaletur. „Ég fann fyrir miklum áhuga á verkefninu Rúnamerki, frá hönnuðum sem og almenningi. Það er eins og alla langi að vita meira um rúnir, en viti ekki hvernig það eigi að snúa sér í því, “ segir Sigurður. Hann brá því á það ráð að reyna að gera rúnir aðgengilegar öllum með því að endurteikna nokkur vel þekkt vörumerki. „Ég ætlaði alltaf að gera meira og halda áfram að vinna með þennan áhuga og fljótlega gerðist það að Svavar frá Lesstofunni hafði samband við mig,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd:  - Lesstofan
Frá útgáfuhófi bókarinnar í gær

Lesstofan er að sögn Sigurðar lítil, óháð útgáfa en þar hafði verið í gangi um nokkurt skeið undirbúningur útgáfu bókar um rúnir. Textavinnan var langt komin en hún var í höndum miðaldafræðingsins Theresu Drafnar Freysdóttur Njarðvík sem er sérfróð um rúnir, merkingu þeirra og notkun. „Ég kom svo að verkinu þegar þurfti að færa þetta í form,“ segir Sigurður.

Hann segir að um eldra og yngra fuþark séu til margar góðar prentaðar heimildir, sem og rúnasteinar víðsvegar um Norðurlöndin. „Um íslenska fuþark eru einnig til margar prentaðar heimilidir og steinar en sérstaða okkar eru einmitt óútgefnar heimildir úr handritum sem Teresa hefur fundið til,“ segir hann. „Teresa hefur mikla þekkingu á þessum heimildum og hjálpaði mér að finna réttu og algengustu formin til þess að teikna rúnastafrófin eftir. Í bókinni setjum við algengustu form hverrar rúnar í forgrunn en sýnum oft líka aðrar útgáfur sem einnig voru í notkun.“

Fyrsta verkefni sinnar tegundar

Í bókin eru hin þrjú kerfi rúnaleturs tekin saman; eldra fuþark, yngra fuþark og hið íslenska fuþark. Sömuleiðis er saga og menning rúnanna rakin í verkinu og þá er formgerð þeirra að auki sett í nútímalegt samhengi. Þannig er hver rún teiknuð upp í samræmdu letri sem er í takt við nútímaleturhönnun. Verkefnið á sér ekki fordæmi en aldrei áður hafa þessi þrjú rúnakerfi verið teiknuð upp og gefin út með nútímalegu letri, í anda svissneskrar leturhefðar. Aðstandendur verksins vilja með því hefja rúnastafrófið upp á sama plan og önnur rótgróin og betur þekkt stafróf í menningarsögunni.

Mynd með færslu
 Mynd:  - Lesstofan
Höfundar verksins Sigurður Oddsson hönnuður og Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík miðaldafræðingur

Menningarnám og nýnasismi

Sigurður bendir á að í formála bókarinnar fjalli Teresa um misnotkun rúna í gegnum tíðina í pólitískum tilgangi sem hann kallar gróft menningarnám og mikið áhyggjuefni. „Rúnir hafa jú á seinni tímum verið tengdar við nasisma seinni heimstyrjaldarinnar og nýnasisma. Slík notkun sem tengir rúnir við hatursfulla orðræðu og hugmyndafræði er því miður enn í gangi,“ segir hann. „Í formála bókarinnar er jafnframt vitnað í heimspeki Snorra Eddu þar sem sagt er að hatur og og fordómar verði til vegna vanþekkingar og einangrunar.“

Endurvakning gleymdra stafrófskerfa

Aðspurður telur hann að staða rúnaleturs í menningararfinum geti breyst. „Það eru fordæmi fyrir því að endurvekja nánast gleymd stafrófakerfi, til dæmis velska stafrófið sem nýlega varð mjög áberandi í þjóðareinkenni þeirra, sem og ungverska rúnakerfið, sem þeir nota í dag til dæmis til að merkja bæjarmörk,“ segir hann. Hann segist jafnframt vona að fólk sjái fegurðina í því að gleyma ekki slíkum menningararfi og sjái möguleikana í að nota hann í nútímalegu samhengi. „Það er markmið okkar með bókinni að vekja einmitt áhuga fólks á rúnum sem almennum hluta af menningararfinum, og skapa heimild til þess að geta miðlað þessari þekkingu til sem flestra.“

Athygli vekur að bókin er á ensku, en Sigurður segir að það sé til þess að ná til stærri markhóps en ef bókin hefði verið á  íslensku. Þó er stefnt að útgáfu á íslensku seinna á þessu ári. „Bókin kemur fyrst út á ensku, og er miðuð við alþjóðlegan markhóp, bæði ferðamenn hér á landi, sem og fræðimenn og aðra áhugasama úti í heimi sem kaupa bækurnar af netinu. Enskan útilokar ekki Íslendinga en opnar á svo miklu stærri hóp, svo það lá beinast við að byrja á ensku,“ segir hann.

Útgáfu fagnað á Hönnunarmars

Útgáfu bókarinnar var fagnað með útgáfuhófi í gær, og sýningu á HönnunarMars en formlegri dagskrá hátíðarinnar lýkur í dag. „Við reyndum svo að útvíkka þetta með sýningunni á HönnunarMars þar sem við sýnum rúnir í samhengi nútímans, í plakötum, skilti og bjóðum fólki að spreyta sig sjálft í að mynda orð og setningar með rúnum,“ segir Sigurður.

Mynd með færslu
 Mynd:  - Lesstofan