Menningarnám og nýnasismi
Sigurður bendir á að í formála bókarinnar fjalli Teresa um misnotkun rúna í gegnum tíðina í pólitískum tilgangi sem hann kallar gróft menningarnám og mikið áhyggjuefni. „Rúnir hafa jú á seinni tímum verið tengdar við nasisma seinni heimstyrjaldarinnar og nýnasisma. Slík notkun sem tengir rúnir við hatursfulla orðræðu og hugmyndafræði er því miður enn í gangi,“ segir hann. „Í formála bókarinnar er jafnframt vitnað í heimspeki Snorra Eddu þar sem sagt er að hatur og og fordómar verði til vegna vanþekkingar og einangrunar.“
Endurvakning gleymdra stafrófskerfa
Aðspurður telur hann að staða rúnaleturs í menningararfinum geti breyst. „Það eru fordæmi fyrir því að endurvekja nánast gleymd stafrófakerfi, til dæmis velska stafrófið sem nýlega varð mjög áberandi í þjóðareinkenni þeirra, sem og ungverska rúnakerfið, sem þeir nota í dag til dæmis til að merkja bæjarmörk,“ segir hann. Hann segist jafnframt vona að fólk sjái fegurðina í því að gleyma ekki slíkum menningararfi og sjái möguleikana í að nota hann í nútímalegu samhengi. „Það er markmið okkar með bókinni að vekja einmitt áhuga fólks á rúnum sem almennum hluta af menningararfinum, og skapa heimild til þess að geta miðlað þessari þekkingu til sem flestra.“
Athygli vekur að bókin er á ensku, en Sigurður segir að það sé til þess að ná til stærri markhóps en ef bókin hefði verið á íslensku. Þó er stefnt að útgáfu á íslensku seinna á þessu ári. „Bókin kemur fyrst út á ensku, og er miðuð við alþjóðlegan markhóp, bæði ferðamenn hér á landi, sem og fræðimenn og aðra áhugasama úti í heimi sem kaupa bækurnar af netinu. Enskan útilokar ekki Íslendinga en opnar á svo miklu stærri hóp, svo það lá beinast við að byrja á ensku,“ segir hann.
Útgáfu fagnað á Hönnunarmars
Útgáfu bókarinnar var fagnað með útgáfuhófi í gær, og sýningu á HönnunarMars en formlegri dagskrá hátíðarinnar lýkur í dag. „Við reyndum svo að útvíkka þetta með sýningunni á HönnunarMars þar sem við sýnum rúnir í samhengi nútímans, í plakötum, skilti og bjóðum fólki að spreyta sig sjálft í að mynda orð og setningar með rúnum,“ segir Sigurður.