Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rúmur helmingur giftir sig hjá sýslumanni

19.12.2018 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Hlutur þjóðkirkjunnar í hjónavígslum hefur farið minnkandi undanfarin ár. Fleiri gengu í hjúskap hjá sýslumanni í síðasta mánuði en innan þjóðkirkjunnar, samkvæmt samantekt á vef Þjóðskrár.

Hlutur Þjóðkirkjunnar hefur farið úr rúmum sjötíu prósentum um síðustu aldamót í innan við fimmtíu prósent á þessu ári. Af þeim 242 sem gengu í hjónaband í síðasta mánuði kusu 122 að gera það hjá sýslumanni, eða 50,4 prósent. 80 giftu sig í þjóðkirkjunni, eða 33,1 prósent. 34 gengu í hjúskap í trú- eða lífsskoðunarfélagi utan þjóðkirkjunnar og 6 giftu sig erlendis. 

Um aldamót var hlutfall hjónavígslna hjá sýslumanni rúm 13 prósent en er nú rúmlega 31 prósent. Hlutur annarra trúfélaga er kominn úr 7 prósentum í 15,5 prósent. 

Það sem af er árinu hafa 1.178 einstaklingar skilið. Á öllu síðasta ári var fjöldinn 1.394. Hér má lesa samantektina á vef Þjóðskrár

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir