Rúmlega helmingur andvígur aðild að ESB

15.10.2013 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmur helmingur landsmanna á kosningaaldri er andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu, samkvæmt nýrri könnun. Tveir af hverjum þremur vilja hins vegar að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna.

Rannsóknarfyrirtækið Maskína spurði tæplega 800 manns um afstöðu til mála sem varða Evrópusambandið og Ísland - þar á meðal um afstöðu þeirra til aðildarviðræðna. 51,7 prósent þeirra sem taka afstöðu vilja að aðildarviðræðum verði haldið áfram, 34,7 prósent vilja að þeim verði alfarið slitið en 13,6 prósent vilja að hlé verði gert á aðildarviðræðum - sem er sú staða sem viðræðurnar eru nú í.

Maskína spurði einnig um afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. 67,1 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust vilja slíka atkvæðagreiðslu, 32, 9 prósent sögðust ekki vilja þjóðaratkvæðagreiðslu. Af þeim sem tóku afstöðu til þess hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið sögðust 50,7 prósent vera mjög eða frekar andvíg inngöngu, 28,4 prósent sögðust vera mjög eða frekar hlynnt inngöngu og 20,9 prósent sögðust hvorki hlynnt né andvíg.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar nánar kemur í ljós að meirihluti kjósenda allra stjórnmálaflokka nema Framsóknarflokksins eru fylgjandi því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um framhald aðildarviðræðna. Kjósendur Framsóknarflokksins skiptast í tvo hnífjafna hópa hvað afstöðu til þessarar spurningar varðar; helmingur með og helmingur á móti. 

51% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 56% kjósenda Framsóknarflokksins vilja slíta núverandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið, en rétt rúmur fimmtungur í báðum flokkum vill halda viðræðunum áfram. Meirihluti kjósenda í stjórnarandstöðuflokkunum vill halda viðræðunum áfram. 

Hærra hlutfall karla en kvenna vill halda áfram aðildarviðræðunum (58% karla, 45% kvenna). Reykvíkingar og íbúar nágrannasveitarfélaga vilja í meiri mæli halda viðræðunum áfram (55-58%) en þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins (43%). Næstum 63% þeirra sem eru með háskólapróf vilja halda áfram viðræðunum, en 35-48% þeirra sem eru með styttri skólagöngu. 

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu, og fór fram 27. sept. til 10. október 2013. Íslendingar á aldrinum 18-75 ára tóku þátt. Svarendur voru 783 og gögnin eru vigtuð með tilliti til réttrar skiptingar kyns, aldurs og búsetu í Þjóðskrá. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi