Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rúm 80% færri lifrarbólgusmit á Vogi

22.01.2019 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmlega 80% færri lifrarbólgusmit greinast nú á sjúkrahúsinu Vogi en fyrir þremur árum. Sigurður Ólafsson læknir, sem leiðir átak í meðferð við lifrarbólgu, segir að engin önnur þjóð sé komin lengra í baráttunni við sjúkdóminn. 800 hafa þegið fría meðferð.

„95% hafa þáð meðferð. Árangurinn er mjög góður. Lang flestir sem klára meðferðina læknast. Við höfum séð eins og alls staðarannars staðar í heiminum að það er svolítið um endursmit að fólk smitist aftur. Við höfum meðhöndlað suma sjúklinga í tvígang og oftast með mjög góðum árangri,“ segir Sigurður. 

50% þeirra sem höfðu sprautað sig með vímuefnum og lögðust inn á Vog voru með lifrarbólgu C árið 2015. Í fyrra voru það tæp 10%. Því hefur dregið verulega úr lifrarbólgusmiti meðal þeirra sem sprauta sig í æð og leggjast inn á Vog síðan meðferðarátakið hófst. Árið 2016 voru 30% fanga á Litla Hrauni með lifrarbólgu C. Tveim árum seinna voru innan við 10% með lifrarbólgu.

Sigurður segir að það sé mikilvægt að viðhalda þessum árangri með því að meðhöndla ný smit og skima áhættuhópa, þótt meðferðarátakinu sé formlega að ljúka.

„Ég geri ráð fyrir því að sjúklingar fái lyf áfram frítt og alla þjónustu. Við erum komin lengra að ég tel, heldur en nokkur önnur þjóð í að ná markmiðum alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, um 80% lækkun á nýgengi. Þeir hafa stefnt að því að þjóðir heims nái þessu 2030. Ef við getum haldið áfram okkar striki þá höfum við góðan möguleika á að ná þessu fyrr,“ segir Sigurður jafnframt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV