Rukkað fyrir klósettferðirnar

16.10.2011 - 18:19
Formaður Þingvallanefndar segir að mjög vel hafi gengið í sumar að rukka ferðamenn, sem vildu nýta sér salernisaðstöðu á Hakinu á Þingvöllum. 200 krónur kostaði fyrir átján ára og eldri að fara á klósettið. Ekki verður innheimt fyrir salernisferðir í vetur.

Á umhverfisþingi, sem haldið var á Selfossi á föstudaginn, var fjallað í einni málstofunni um útivist, ferðaþjónustu og náttúruvernd. Þar kviknuðu líflegar umræður um hvort ferðamenn eigi að borga fyrir að skoða þekkta ferðamannastaði eins og  til dæmis Gullfoss, Geysi, Landmannalaugar og Þingvelli. Álfheiður Ingadóttir, alþingismaður og formaður Þingvallanefndar blandaði sér inn í umræðuna og nefndi að mjög vel hafi gengið í sumar að rukka ferðamenn fyrir salernisferðir á Þingvöllum. „Það eru sjálfvirk hlið, svona eins og þegar menn fara í sundlaugar, sem menn ganga í gegnum og borga 200 krónur eða eina evru. Og þetta er fyrir 18 ára og eldri. Við tókum þetta upp í sumar í tilraunaskyni en nú eru aftur gömlu klósettin opin. Þetta er fyrst og fremst til að mæta þeim gríðarlega fjölda sem þarna er og geta þjónað honum betur,“ sagði Álfheiður við fréttastofu. „Ég hef verið og er andsnúin því að það sé borgað fyrir aðgang að náttúru Íslands í sjálfu sér,“ svaraði hún aðspurð um gjaldtöku almennt á ferðamannastöðum.