Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ruglandi bókstafir miðað við flokkaheiti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
B fyrir Bjarta framtíð? F fyrir Framsóknarflokkinn? S fyrir Sjálfstæðisflokkinn? V fyrir Viðreisn? Nei, alls ekki. Listabókstafir fyrir Alþingiskosningarnar geta verið villandi. Sumir bókstafirnir eru eins og fyrsti bókstafurinn í nafni stjórnmálaflokksins. Fleiri bókstafir eiga þó ekkert skylt við nafn stjórnmálaflokksins og tilheyra jafnvel öðrum flokkum.

Björt framtíð er ekki með B heldur með A. Listabókstafurinn B tilheyrir Framsóknarflokknum og hann er því ekki með F. Það er Flokkur fólksins. Viðreisn er ekki með V heldur C. Vinstrihreyfingin - grænt framboð er með V. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki með S heldur D. Listabókstafurinn S tilheyrir Samfylkingunni. 

Fimm flokkar, sem bjóða fram í kosningunum, hafa sama listabókstaf og flokksheitið þ.e. Flokkur fólksins, Húmanistaflokkurinn, Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn. Sjö flokkar eru hins vegar með aðra bókstafi. Þeir eru Björt framtíð (A), Framsóknarflokkurinn (B), Viðreisn (C), Sjálfstæðisflokkurinn (D), Íslenska þjóðfylkingin (E), Alþýðufylkingin (R) og Dögun (T). 

Þegar kosið er utankjörfundar stendur ekkert á kjörseðlinum, enginn listabókstafur, heiti stjórnmálaflokks eða nöfn frambjóðenda. Þannig segir DV frá að tónlistarmaðurinn Sindri Eldon hafi skrifað á Facebook-síðu Gunnars Hrafns Jónssonar frambjóðanda hjá Pírötum að Sindri hafi skrifað x-Þ á kjörseðil sinn þegar hann kaus utankjörfundar á Seattle í Bandaríkjunum. Píratar breyttu um listabókstaf í sumar og fengu úthlutað P í stað Þ áður. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV