Höfundarferill JK Rowling er nokkuð fræg Öskubusku-saga en er hann hófst var hún fátæk einstæð móðir. Hún barðist lengi í bökkum og var hafnað af fjölda útgáfufyrirtækja áður en Harry Potter-heimurinn umbreyttist í bókmenntalegt stórveldi. JK Rowling þénar í dag mest allra rithöfunda í heimi. Árið 2012 datt hún út af lista Forbes yfir ríkasta fólk heims vegna fjárhæða sem hún gaf til góðgerðamála og hefur sér í lagi beitt sér fyrir málefnum munaðarlausra barna. Eins og lesendur Harry Potter-bókanna ættu að þekkja er aðalpersóna bókanna einmitt munaðarlaus.
Velgengnina þakkar hún þrautseigju, þegar hún hélt áfram í átt sem flestir vildu telja henni trú um að væri blindgata. „Ég braut helstu boðorð tíunda áratugarins um ritun barnabóka í leiðinni: Karlkyns aðalpersónur eru ekki í tísku. Heimavistarskólar eru ömurlegir. Engin barnabók skal vera lengri en 45.000 orð,“ segir Rowling á vef sínum.
„Gleymum þess vegna öllum reglunum og einbeitum okkur að þeim eiginleikum sem við verðum að tileinka okkur til þess að ná árangri.“
• Þá nefnir hún í fyrsta lagi að mikilvægt sé fyrir upprennandi höfunda að vera duglegir að lesa, sér í lagi þeir sem yngri eru.
• Næst nefnir hún að rithöfundar þurfi að temja sér öguð vinnubrögð og ekki sé hægt að treysta á innblásturinn.
• Þá nefnir hún að höfundar þurfi að vera harðir af sér og auðmjúkir, því að höfnun og gagnrýni sé hluti af lífi rithöfundarins. Hún segir að ígrunduð gagnrýni sé bæði gagnleg og nauðsynleg en margir af bestu höfundum heimsins hafi lent í því að vera ítrekað hafnað áður en þeir fengu samning. Þess má til gamans geta að Rowling á sjálf þannig sögu og það er næsta víst að starfsmenn þessara 12 bókaútgáfa sem höfnuðu handritinu að Harry Potter nagi sig í handabökin, enn í dag.
• Hugrekki er næst á listanum. Rowling segir að sorglegasta ástæðan fyrir því að gera ekki það sem manni var ætlað að gera sé ótti við að gera mistök.
• Þá nefnir hún til sögunnar sjálfstæði og frelsi frá því að höfundur telji sig þurfa að fylgja heilu bókunum af reglum sem segja hvernig eigi og eigi ekki að gera hlutina. Hún bendir á vefsíðuna Writer beware í þessu samhengi og segir að lokum að starfið snúist um að gera sitt besta, læra eins mikið og maður getur. Hún segir þá að fullkomin listaverk séu álíka algeng og fullkomnar manneskjur.