Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rotvarnarefni gjörningasögunnar

Mynd: nýló / nýló

Rotvarnarefni gjörningasögunnar

08.04.2018 - 10:00

Höfundar

„Leifarnar er að finna í svokölluðu gjörningaarkífi. Reyndar má færa rök fyrir því að safnið sé í raun að nota rotvarnarefni á gjörningana. Önnur hringrás, annar kleinuhringur. Kynslóðir að hringast um hvor aðra, ögrandi og lærandi af hvort öðru. Kannski er Nýló meira eins og súrdeigsmamma.“ Bára Bjarnadóttir sendi Víðsjá skilaboð frá Nýlistasafninu í tilefni af 40 ára afmæli safnsins.

Bára Bjarnadóttir skrifar frá Berlín. Kristín Helga Ríkharðsdóttir les í Reykjavík:

Óræð mylsna kurlast og þyrlast í vindinum. Á óveðursdegi á aðventu sat ég yfir í Nýlistasafninu, Breiðholti. Það lagði greinilega enginn út í sláandi rigninguna svo ég sat þarna alein alla vaktina. Reyndar var svo dimmt úti að ég sá endurspeglan mína í sífellu í gluggunum svo að henni meðtaldri voru eiginlega tvær á vakt.

Svo heppilega vildi til að það var sýning uppi um tengingu arkitektúrs og hryllingsmynda. Alla vaktina spilaðist ágengt stef úr svölu myndbandsverki Darren Banks á efri hæðinni sem bergmálaði niður á kaffistofu. Stefið varð óhugnalegra þegar leið á daginn enda varð ég líka æstari og æstari sökum óhóflegrar kaffidrykkju því enginn annar var að drekka uppáhellinguna.

Flúorlýst neðri hæðin breyttist í vettvang dimmrar spennumyndar frá níunda áratugnum og rólegur dagur breyttist í grunsamlega viðburðalítinn dag.

Á efri hæðinni lamdi rigning á glugga sem hýsti límbandsverk eftir Shirin Sabahi. Verkið sem samanstóð úr fíngerðu krossamynstri öðlaðist nýtt andlit í óveðrinu. Límbandið minnti á það sem ég hef séð teipað í glugga fyrir óveðursdaga í bíómyndum, þetta er gert til að glerið splundrist ekki inn á við. Það var eins og einhver hefði áhyggjur af því að glugginn myndi gefa undan storminum.

Mér þykir leitt að fólk hafi misst af svo tilkomumiklum óveðursdegi til að sjá gæði svona dimmrar sýningar í sínu besta ljósi. Leiðinlegt að missa af svartholinu í verki Elínar Hansdóttur spjalla við svarthol fyrir utan. Hins vegar samgleðst ég sjálfri mér að hafa upplifað svona óttablandna forvitni og áferðarblæti í þáverandi Nýlistasafni.

Angurværi unglingurinn í mér elskar svona smávægilegt auka drama, eiginlega bara rómantískt vesen. Eins og að setja ekki á sig hettu í rigningu eða að hlusta á Deftones í flugvél.

Í Nýló fæ ég þó að mata angurværðina mína í öruggu umhverfi. Ég er staðsett í strúktúr sem er byggður á herðum ástríkra listamanna. Vinnuhestanna sem hafa hlúað að safninu áratugum saman og gefið því tíma sinn og orku. Leifar þessarar orku er að finna í arkífi safnsins og margra laga málningar í sýningarrýmum þess.

Mylsnu þessarar orku má finna um allan bæ. Mylsna í Núllinu. Mylsna á Skúlagötu í gamla Frón. Fjúkandi mylsna úr Breiðholti niður á Granda.

Hvernig helst Nýló saman þrátt fyrir allann þennann mulning? Hvað er límið, kjarninn? Ég þykist ekkert vita hvort það sé einhver kjarni. Kannski er Nýló meira eins og kleinuhringur: Gómsæt hringrás sem við vitum ekki nákvæmlega hvort muni eldast vel eður ei.

Hver veit eiginlega hvernig kleinuhringur eldist? Það eru svo mikið af aukaefnum og þótt hann sé lífrænn getur maður ekkert vitað nákvæmlega hvaðan allt kom eða hvort maður geti treyst framleiðandanum. Það er verið að tala um að fólk rotni ekki lengur eftir dauðann því við borðum svo mikið af rotvarnarefnum.

Hlutirnir þurfa ekkert að vera þannig. Við þurfum að sjá fegurðina í því sem er tímabundið. Það er mikið haldið upp á hið tímabundna í Nýló með því að varðveita leifar af tímabundinni list. Leifarnar er að finna í svokölluðu gjörningaarkífi. Reyndar má færa rök fyrir því að safnið sé í raun að nota rotvarnarefni á gjörningana. Önnur hringrás, annar kleinuhringur. Kynslóðir að hringast um hvor aðra, ögrandi og lærandi af hvort öðru. Kannski er Nýló meira eins og súrdeigsmamma. Torskilið og lífrænt lífsform sem taka má af, og úr verða fleiri litlar súrdeigsmömmur eða lítil Nýló.

Ég sleiki puttann og beini honum á loft til að finna hvernig vindurinn blæs. Á puttann í vindinum límist mulningur af gamla og nýlega Nýló.