Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Róttækra aðgerða þörf ef ekki á illa að fara

08.10.2018 - 05:49
epa05197238 A photo made available on 06 March 2016 shows a Thai villager boy sits on drought parched land at a dried up irrigation canal in Chachoengsao province, Thailand, 05 March 2016. Thailand is facing the worst drought in decades caused by climate
 Mynd: EPA
Byltingarkenndra breytinga er þörf á samfélags- og efnahagskerfum heimsins ef hlýnun Jarðar á ekki að fara endanlega úr böndunum og valda stórkostlegu tjóni fyrir lönd og lýði. Þetta er ein meginniðurstaða nýrrar skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem kynnt var í Seúl í morgun. Þar kemur fram, að hlýnun Jarðar geti náð 1,5 gráðum svo snemma sem árið 2030 og í síðasta lagi 2052, haldi losun gróðurhúsalofttegunda áfram að aukast í sama mæli og undanfarin ár.

Í skýrslunni er farið í saumana á því, hvort og þá hvernig takast megi að ná metnaðarfyllstu markmiðum Loftslagsnefndarinnar og Parísarsamkomulagsins um að loftslag Jarðar verði ekki meira en 1,5 gráðum hlýrra en það var fyrir daga iðnbyltingarinnar. Hlýnunin hefur þegar náð einni gráðu, þannig að svigrúmið er ekki mikið.

Þetta hefur þegar skilað sér í auknum öfgum í veðurfari; fleiri og meiri stormum, flóðum, hitabylgjum og þurrkum. Ef ekkert verður að gert gæti hlýnunin náð þremur eða jafnvel fjórum gráðum, sem mun valda því að feikistór landsvæði verða óbyggileg.

Flókið, erfitt og dýrt - en óhjákvæmilegt

Og tíminn til að bregðast við er nánast á þrotum; til að takmarka hlýnun Jarðar við 1,5 gráður þyrfti að grípa til skjótra, víðtækra og fordæmalausra aðgerða á öllum sviðum samfélagsins," segir í yfirlýsingu Loftslagsnefndarinnar. Varað er við því að þetta verði allt í senn flókið, erfitt og afar kostnaðarsamt verkefni, en hinn valkosturinn - að bregðast ekki við - kalli á enn flóknari, erfiðari og dýrari aðgerðir í framtíðinni. 

Unnið upp úr þúsundum rannsókna

Skýrslan sjálf er upp á 400 blaðsíður og geymir afrakstur þriggja ára rannsóknavinnu vísindamanna um allan heim. Loftslagsnefndin stundar ekki eigin rannsóknir, en 90 vísindamenn frá 40 löndum unnu skýrsluna á hennar vegum upp úr um það bil 6.000 vísindagreinum og rannsóknum alstaðar að úr heiminum.

Helstu niðurstöður þessarar vinnu eru svo birtar sérstaklega í 33 blaðsíðna útdrætti, svokallaðri „Samantekt fyrir stefnumótandi aðila" - það er að segja stjórnmálaleiðtoga heimsins. Í samantektinni er því lýst hve haldlitlar allar tilraunir manna til að hægja á hlýnun Jarðar hafa reynst til þessa og dregnir upp skýrir valkostir, sem allir fela í sér grundvallarbreytingar á efnahagslífi heimsins, vilji menn forðast stórkostleg spjöll á helstu lífkerfum Jarðar. 

Helstu niðurstöður - fordæmalausra breytinga er þörf

Til að halda hlýnun Jarðar innan við 1,5 stig frá meðalhita fyrir daga iðnbyltingar þarf að grípa til „skjótra, víðtækra og fordæmalausra aðgerða á öllum sviðum samfélagsins" eins og segir í samantekt Loftslagsnefndarinnar. Þetta á við um orkubúskapinn, landnotkun, borgarskipulag, samgöngur og byggingabransann og allan heimsins iðnað, svo það helsta sé nefnt.

Hitastig við yfirborð Jarðar hefur þegar hækkað um eina gráðu, sem nú þegar hefur haft afgerandi áhrif til hins verra á veðurfar í heiminum. Og meðalhitinn mun hækka um tvær til þrjár gráður til viðbótar á næstu áratugum ef ekki verður gripið ti róttækra aðgerða til að minnka kolefnismengun bæði skjótt og varanlega. Að öðrum kosti megi fullyrða „með mikilli vissu" að hlýnunin verði orðin meiri en 1,5 gráður ekki síðar en um miðja öldina, og jafnvel strax eftir 12 ár, það er að segja árið 2030.

Losun koltvísýrings, sem er sú gróðurhúsalofttegund sem mesta vægið hefur, má ekki halda áfram að aukast - hún verður að hafa náð hámarki árið 2020 og minnka snarlega eftir það. Þetta er þó hægara ort en gjört, því mannkynið hefur aldrei losað meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en í fyrra, og fátt bendir til þess að losunin verði minni í ár. 

Kolefnishutlaus tilvera fyrir 2050

Standi vilji ráðamanna heims til að takmarka hlýnun Jarðar við 1,5 gráður þarf augljóslega að takmarka losun koltvísýrings verulega. Árið 2030 þyrfti losun að vera orðin 45 prósentum minni en hún var árið 2010, og í síðasta lagi 2050 þarf heimsbyggðin að vera orðin „kolefnishlutlaus" til að viðhalda þó ekki sé nema helmingslíkum á að takmarka hlýnunina við 1,5 gráður.

Þetta þýðir einfaldlega að „hvert tonn af koltvísýringi sem við losum út í andrúmsloftið þarf að jafna út með því að fjarlægja tonn af koltvísýringi á móti," segir Myles Allen, yfirmaður loftslagsrannsóknateymis Oxfordháskóla og aðalritstjóri skýrslu Loftslagsnefndarinnar.

Dýrt að bregðast við - dýrara að gera ekki neitt

Til að ná þessum markmiðum þarf að stórauka hlut endurnýjanlegrar orku á kostnað jarðefnaeldsneytis. Hlutdeild vatns- sólar- og vindorku í orkubúskap heimsins þarf að fara úr þeim 20 prósentum sem hún er í dag upp í 70 prósent fyrir eða um miðja þessa öld. Og hlutdeild kolaorku þarf á sama tíma að fara úr 40 prósentum niður í nánast ekki neitt.

Áætlað er að þetta kalli á fjárfestingar upp á 2,4 billjónir Bandaríkjadala, um 275 billjónir króna, á ári hverju fram til ársins 2035. Það eru um 2,5 prósent af landsframleiðslu allrar heimsbyggðarinnar. Þetta kann að virðast ansi hátt verð, segir í skýrslunni, en aðgerðaleysið mun kosta okkur enn meira.  

1,5 gráður eða 2 gráður

Opinbert markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hlýnun Jarðar undir tveimur gráðum. Jafnframt er lögð áhersla á að stefna beri að því að halda henni undir 1,5 gráðum ef kostur er.

Til skamms tíma var litið svo á að tveggja gráðu hlýnun væri vel innan marka þess þolanlega, en nýjustu rannsóknir benda til þess að svo sé ekki. Og munurinn sem þessi hálfa gráða til eða frá veldur á loftslagi og loftslagsbreytingum er gríðarlegur, segir Henri Waisman, einn aðalhöfunda skýrslu Loftslagsnefndarinnar.

Herðir á tegundadauða og hækkun sjávar

Skæðustu hitabylgjur á norðurhveli Jarðar, sem áður urðu þar einu sinni á öld eða svo, verða allt að helming ilíklegri en ella á mörgum svæðum ef hlýnunin verður 2 gráður frekar en 1,5.

Bleiking kóralrifja verður enn meira vandamál, og í stað þess að allt að 90 prósent allra kóralrifja dreyi, eins og líklegt er ef hlýnunin verður 1,5 gráður, munu að líkindum 98 prósent þeirra deyja, sem aftur veldur hruni fjölmargra fiskistofna. Þetta mun hafa bein, neikvæð áhrif á afkomu ríflega hálfs milljarðs manna og óbein áhrif á enn fleiri.

Tegundadauði verður enn hraðari en ella og uppskera algengra korn- og grænmetistegunda mun rýrna 10 - 15 prósentum meira. Þá mun þessi hálfa gráða mögulega herða mjög á bráðnun hafíss og jökla og þiðnun metan-ríks sífrera, sem aftur getur leitt til þess að yfirborð sjávar hækki um tugi metra umfram það sem reiknað hefur verið með.  

Leiðir til árangurs 

Niðurstaða vísindamannanna er sú, að það sé hvort tveggja gerlegt og hagkvæmt að halda hlýnun Jarðar undir 1,5 gráðum á Celsius. Til að sú verði raunin þurfi hins vegar pólitískan vilja til að grípa til þeirra aðgerða sem duga. Fjórar mismunandi leiðir að þessu markmiði eru útlistaðar í samantektinni. Ein þeirra byggir fyrst og fremst á aðgerðum sem miða að því að draga mikið og hratt úr orkuþörf heimsbyggðarinnar.

Í annarri er mikil áhersla lögð á gagngerar breytingar á neysluvenjum fólks, svo sem að draga verulega úr kjötneyslu og hætta alfarið að framleiða og nota bíla sem knúnir eru sprengihreyflum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Hinar tvær leiðirnar miða ekki að því að draga úr losun heldur þvert á móti að fjarlægja koltvísýring úr andrúmsloftinu. Önnur þessara leiða byggist einkum á stórfelldri skógrækt, en hin á beinni vinnslu koltvísýrings úr andrúmsloftinu. Loks er þess getið að vel sé hægt að feta fleiri en eina þessara leiða að settu marki, og það samtímis. 
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV