Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rotta drepin í þotu Icelandair

23.09.2015 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pixabay.com
Icelandair hefur tekist að ráða niðurlögum rottu sem lék lausum hala í þotu félagsins. Tilraunir til að handsama rottuna og eitra fyrir henni gengu illa og var þotan tekin úr notkun í meira en viku.

DV sagði frá málinu í síðustu viku. Þar var haft eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, að þetta væri líklega hamstur eða annað lítið nagdýr sem sennilega hefði komist um borð á flugvelli erlendis. Þá hafði dýrið enn ekki náðst og margt á huldu um eðli vágestsins.

Icelandair tilkynnti rottuna til eftirlitsdýralæknis Matvælastofnunar sem ráðlagði félaginu að kalla til meindýraeyði. Vélin var tekin úr umferð og í flugskýli í Keflavík reyndi meindýraeyðir dögum saman að hafa upp á kvikindinu án árangurs. Í fyrstu var reynt að dauðhreinsa flugvélina með eins konar eiturbombu. Síðar var lagður út fjöldinn allur af gildrum en rottunni þóknaðist ekki það agn sem henni var boðið. Samkvæmt heimildum fréttastofu féll rottan á endanum fyrir hendi flugvirkja sem rakst á dýrið við vinnu sína. Vélin var yfirfarin mjög ítarlega og er aftur komin í notkun.

Guðjón Arngrímsson segir að það gerist endrum og sinnum að meindýr komist um borð í flugvélar en starfsmenn Icelandair reki ekki minni til þess að rotta hafi áður komist um borð í vélar félagsins. Hann vill ekki nefna hvert mögulegt tjón geti verið.

Rotta í flugvél hvorki alvarleg né slys

Samkvæmt upplýsingum frá rannsóknarnefnd samgönguslysa barst nefndinni afrit af tilkynningu Icelandair til Samgöngustofu vegna málsins. Um var að ræða svokallað „occurrence report“ vegna flugatviks. Þá þegar hafði nefndin fengið upplýsingar eftir öðrum leiðum um meindýrið og að verið væri að reyna að ráða niðurlögum þess. Flugatvikið flokkast hvorki sem alvarlegt flugatvik né flugslys og er því ekki til rannsóknar hjá nefndinni.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV