Rostungurinn sem flatmagaði við strendur Jökulsárlóns á föstudaginn virðist hafa haldið sína leið. Starfsfólk lónsins segist ekki hafa orðið vart við hann síðan á laugardag.
Óttast var um afdrif hans en dragist strandferðir rostunga á langinn getur það haft skaðleg áhrif. Starfsfólkið lét Náttúrufræðistofnun, lögregluna á Höfn og dýralækni vita og sú ákvörðun var tekin að bíða og sjá hvernig honum reiddi af. Lögregla telur að um sé að ræða sama rostung og rak á fjörur Reyðarfjarðar í júní en lýsingin passar í meginatriðum, tennur jafnstórar og litur áþekkur.