Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rómverjar mótmæla Raggi

28.10.2018 - 05:41
Erlent · Ítalía · Evrópa
Rome's citizens, fed up of the ongoing decay of the city, demonstrate in front of Rome's Campidoglio Capitol Hill, Saturday, Oct. 27, 2018. Writing on a broom reads "Very useful object.... (maybe still unknown in Rome)".  (AP Photo
 Mynd: AP
Þúsundir komu saman á götum Rómar í gær til þess að mótmæla hrakandi innviðum borgarinnar undir stjórn núverandi borgarstjóra, Virginia Raggi. Raggi tók við völdum árið 2016, og varð þá fyrsta konan til að hljóta embætti borgarstjóra ítölsku höfuðborgarinnar. Hún sat áður í borgarráði fyrir hönd Fimm stjörnu hreyfingarinnar frá árinu 2013, en varð svo borgarstjóraefni flokksins í kosningunum 2016. 

Eitt af fyrstu verkum Raggi í embætti var að draga til baka framboð Rómar sem gestgjafa Ólympíuleikanna 2024. Sagði hún að leikarnir ættu eftir að sliga borgina af skuldum. Borgarbúum þykir henni hafa tekist illa upp með að byggja upp innviði borgarinnar eftir að hún tók við embætti. Víða eru hlutar umferðargatna girtir af í borginni vegna skemmda, gangstéttir eru sagðar hættulegar og rusl borgarbúa er ekki hirt upp. Þá greinir breska ríkisútvarpið, BBC, frá því að rottur og villisvín gangi villt um stræti borgarinnar.

Almenningssamgöngur eru sagðar í lamasessi, en kviknað hefur í um 20 strætisvögnum í borginni það sem af er þessu ári. Fyrr í vikunni hrundi svo rúllustigi í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar, með þeim afleiðingum að yfir 20 slösuðust. 

Raggi segir hins vegar allt stefna í rétta átt og hún þurfi lengri tíma til þess að vinna úr því sem að er í innviðum borgarinnar. Hversu langan tíma hún fær er þó óvíst. Hún tók við eftir að forveri hennar varð að víkja úr starfi vegna spillingarmála. Nú er hún sjálf grunuð um spillingu, en hún er sökuð um að hafa misbeitt valdi sínu við ráðningu í störf. Dómur verður kveðinn upp í máli hennar 10. nóvember, og hefur hún sagst ætla að segja af sér verði hún fundin sek.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV