Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Römbuðu á helli með 900 ára gömlum minjum

07.08.2015 - 17:30
Mynd: RÚV / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eldstæði og bein sem fundust í helli í Neshrauni á utanverðu Snæfellsnesi í fyrra reyndust vera allt að níu hundruð ára gamlar minjar. Þar hefur útilegumaður hugsanlega haldið til og meðal annars gætt sér á hrossakjöti.

Nokkrir áhugamenn um hella og leyndardóma hrauns héldu í könnunarleiðangur um Neshraun á Snæfellsnesi í fyrravetur og gengu óvænt fram á dularfullt hellisop. Í hópnum voru Lúðvík V. Smárason, Kristinn Jónasson og Óli S. Sigurjónsson ásamt Þór Magnússyni en það var hann sem hafði þefað hellinn uppi. 

Þar sem þetta er nú áhugamál, þessir hellar, var ég svona að kíkja eftir holum og fann hérna stað sem mér fannst spennandi. Ég réði ekki alveg við að fara einn og ákvað að fara helgina á eftir og fá félaga mína með með mér. Svo kom það í ljós að það voru hálfgerð vonbrigði, sem ég var búin að finna. Svo við héldum áfram og skoðuðum okkur betur um og þá römbuðum við á þetta.

Fundurinn kom öllum á óvart

Í hellinum er eldstæði, hrossabein og aðrar vísbendingar um mannaferðir. Fundurinn kom á óvart, enda engar sagnir til um að menn hafi hafst við í hellum á svæðinu og langt er í nærliggjandi bæi. Enginn átti þó von á að því að aldursgreining sýna, sem Minjastofnun lét gera, myndi leiða í ljós að minjarnar eru frá 11. eða 12. öld. Það má því ímynda sér að við eldstæðið hafi einhver setið, fyrir 8 eða 9 hundruð árum, og eldað sér vænan bita af hrossakjöti. 

„Já, það má gera ráð fyrir því. Þetta er eitt það merkilegasta við hellinn. Það er þetta hlaðna eldstæði. Það er dálítð frumstætt og notað það grjót sem hefur verið til staðar hérna,“ segir Magnús A. Sigurðsson, minjavörður Vesturlands, en hann kom í hellinn nokkrum dögum síðar.  

Við eldstæðið má sjá leifar af mold eða grasi og einhvers konar hlaðna umgjörð, sem bendir til þess að flet hafi verið útbúið við varmann af eldinum. Magnús telur líklegast að útilegumaður hafi dvalið í hellinum. „Eða einhver í felum. Það er það erfitt að komast inn í hellinn, erfitt að komast inn í hann. Þannig að þetta er mjög merkilegur og skemmtilegur fundur hérna.“

Staðsetningu Leynis verður haldið leyndri enn um sinn

Í haust verða frekari rannsóknir gerðar í hellinum - sem hefur verið nefndur Leynir - en leitast verður við að halda því leyndu hvar hann er að finna. „Sérstaklega núna er hann mjög viðkvæmur. Hér eru beinaleifarnar enn þá. Hér eru mannvistarleifarnar enn þá. Það er ekki búið að rannsaka hann til fullnustu svo hann er mjög viðkvæmur fyrir allri umferð.“

Þór er ekki í vafa um að margar sögur leynist enn í íslenska hrauninu. „Já, ég er alveg sannfærður um það. Þetta er ekki eini Leynir sem hér er. Það er alveg klárt mál, ég efast ekki um það.“

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV