Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rómantíkin á undan lífinu á sýningu Gucci

Mynd: AP / AP

Rómantíkin á undan lífinu á sýningu Gucci

01.03.2018 - 12:35

Höfundar

Ítalska tískuhúsið Gucci vakti mikla athygli á tískuvikunni í Mílanó í síðustu viku. Alessandro Michele, listrænn stjórnandi vörumerkisins, segir kenningar Donnu J. Harawat um sæborgina, og Michels Foucaults um fagurfræði sjálfsins, vera innblásturinn að sýningunni.

Á sýningu lúxusvörumerkisins mættust ólíkir menningarheimar, en heilmikið meira en bara það. Nýja fatalínan sækir innblástur til fortíðarinnar, til goðsagna, til draumkenndra ævintýraheima, en einnig til framtíðarheims þar sem maðurinn og tölvan eru ekki lengur tvær aðskildar verur. Listrænn stjórnandi Gucci er Ítalinn Alessandro Michele og hefur hann vakið mikla hrifningu frá því hann tók við af fyrirrennara sínum fyrir rúmum tveimur árum. Ímynd Gucci hefur lengstum verið glamúr, peningar, auðæfi, og kampavín, en, frá því Michele tók til starfa, virðist ímyndin nú hafa teygt sig nær almúganum og götunni. Hér er þó auðvitað enn um Gucci að ræða, og því ekki beint föt sem níutíu og níu prósentin hafa efni á.

epa06550546 Italian designer Alessandro Michele appears on the catwalk after his show for Italian label Gucci during the Milan Fashion Week, in Milan, Italy, 21 February 2018. The Fall-Winter 2018/2019 Women's collections are presented at the Milano
 Mynd: EPA
Alessandro Michele á tískusýningunni í síðustu viku

Michele segist vera skurðlæknirinn á læknastofunni

Saga Sigurðardóttir, listakona og ljósmyndari, lýsir tískusýningunni á eftirfarandi hátt: „Tannlæknagrænir veggir og gólf, hvít flúor-skurðlæknalýsing í lofti og prúðbúnir gestir sýningarinnar sitja þröngt á bekkjum sem minna á biðstofuna á læknavaktinni. Á sjálfu sviðinu eru skurðarbekkir og undir þeim eru rauðir ferningar, sem minna á blóð. Það liggur við að maður finni lyktina af spítala að horfa myndir frá sýningunni.“ Nýja fatalínan sækir innblástur víða, segir Saga, meðal annars í babúskur, viðskiptaheim 9. áratugarins, enskt tweed, gömul útsaumsverk og margt margt fleira.

Mynd með færslu
 Mynd: AP

Í viðtölum segist Alessandro Michele sjá sig sem skurðlækninn á læknastofunni. „Hann bútar sundur gamalt og saumar saman,“ segir Saga. „Hann blandar miskunnarlaust saman ólíkum bútum á óvæntan hátt, rétt eins og hann sé að búa til bútasaumsteppi úr fortíðinni. Það sem vekur mesta athygli eru fyrirsætur sem ganga fram með nákvæma eftirlíkingu af sínu eigin höfði, undir annarri hendinni, fyrirsætur með horn og með þriðja augað á enninu, kamelljón, snákar og lítill dreki situr í fanginu á einni fyrirsætunni. Sýningin er veisla fyrir skynfærin!“

Pósthúmanismi innblástur að sýningunni 

Alessandro Michele segir kenningu bandaríska hugsuðarins Donnu J. Haraway um sæborgina hafa verið innblástur að sýningunni. Í ritgerð hennar, sem nefnist „A Cyborg Manifesto: Science, Technology and Socialist-Feminism“ frá 1984, koma fram hugmyndir um vélræna lífveru sem felur bæði í sér ólífræna og lífræna þætti. Í bók sinni Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika, þýðir Úlfhildur Dagsdóttir hugtak Haraway á íslensku sem sæborgina. Sæborgin snýst um að sjá framtíð mannlegrar tilveru sem samsuðu tæknilegs og náttúrulegs eðlis.

A model carries a fake head as she wears a creation as part of the Gucci women's Fall/Winter 2018-2019 collection, presented during the Milan Fashion Week, in Milan, Italy, Wednesday, Feb. 21, 2018. (AP Photo/Antonio Calanni)
 Mynd: AP

Kenningar Haraway eru taldar mikilsverðar innan fræða pósthúmanismans. Það sem er pósthúman er þá það sem kemur á eftir því sem er húman, mannlegt, enda maðurinn ekki lengur miðja alheimsins samkvæmt ismanum, eða eins og heimspekingurinn Sigríður Þorgeirsdóttir skrifar: „Í þessari ferilsverufræði pósthúmanisma er maðurinn ekki miðja sem allt gengur út frá, heldur eru margir kraftar sem standa í flóknum tengslum og venslum hver við annan og knýja áfram lífveruna eða sæborgina.“ Í pósthúmanískum heimi er þannig hvorki hægt að skilja manninn frá náttúrunni né frá tækninni.  

Sæborg Haraway mætir kenningum Foucaults

Úlfhildur Dagsdóttir segir frá því í bók sinni að sæborgin sé í sífelldri leit að sjálfi sínu; hver er sæborgin? Hvaðan kemur hún og hvernig birtist henni veruleikinn? Hún segir sæborgina lausa undan sögu sinni, og að hún sé óskilgetin blanda af þjóðsögum, goðsögnum, vísindasögu, skáldskap og raunvísindum.

Alessando Michele segir sæborg sína kanna tengsl þess sem er, og þess sem verður. Hver erum við og hvað er að verða um okkur? „Hönnuðurinn segir sjálfur að hann vilji sýna fram a tilraunastofu sem sýni hugsanir hans, smá eins og nútímamaðurinn sem setur saman ímynd sína með Instagram, tækni, fegrunaraðgerðum og svo framvegis,“ segir Saga Sigurðardóttir.

Á fjölmiðlafundi eftir tískusýninguna segir Michele: „Við erum Dr. Frankenstein í okkar eigin lífi,“ og vísaði þar með í heim þar sem menn móta eigið sjálf. Ekki að furða að hönnuðurinn vísi einnig í kenningar franska heimspekingsins Michel Foucault í sýningarbæklingnum. En eins og Lestin fjallaði nýlega um, rýndi Foucault í fagurfræði sjálfsins í Sögu kynferðisins og fjallaði um það hvernig maðurinn skapar sjálfan sig og líf sitt sem nokkurs konar listaverk. Sjá má sýninguna í heild hér að neðan. 

Michele virðist taka undir baráttuákall Foucaults um að fólk spyrni gegn yfirvaldinu sem hefur hingað til mótað okkur. Allt er hægt, allt er til og allir mega vera með. Tískusýningin er athyglisverð fyrir þær sakir að hönnuðurinn virðist þar púsla saman hinum og þessum ólíku staðalímyndum og sendir þannig innbyggðu, oft ómeðvituðu, flokkunarkerfi mannsins löngutöngina. Kyn fólks skiptir ekki máli, kona getur allt eins skartað túrban við valdeflandi buxnadragt sína, karlmaður getur einnig gengið um með handtösku, og klæðst hijab-slæðu. Hetta Pussyriot-kvennanna, sem hefur orðið að öflugu femínsku tákni á 21.öldinni, getur allt eins fylgt aldagömlum íhaldsömum viktoríönskum kjól. Flokkunarkerfi mega heyra sögunni til og rímar sýning Micheles, og Gucci, afar vel við tilfinninguna sem kann að fylgja þessum kaótíska samtíma okkar þar sem upplýsingar flæða inn og út, daginn út og inn, upplýsingar um allt og alla, upplýsingar um allra handa strauma og stefnur, upplýsingar um fortíðina, framtíðina, nútíðina; flæðir inn og út, daginn inn, og út.

A model wears a creation as part of the Gucci women's Fall/Winter 2018-2019 collection, presented during the Milan Fashion Week, in Milan, Italy, Wednesday, Feb. 21, 2018. (AP Photo/Antonio Calanni)
 Mynd: AP

Hljóðheimur Micheles er einnig í anda andstæðna, eða þess sem áður hefur verið talið til þeirra; í sýningarrýminu heyrist klassísk tónlist í bland við símhringingar, hraðan lyklaborðsslátt, músarsmelli, hjartalínurit og andardrátt. Eins og áður segir er allt hægt, allt til og allir mega vera með í þessari nýju pósthúmanísku veröld Gucci. Og þar með talið allt það sem rúmast innan ímyndaðrar flóru hugarheims okkar. Græneðlur, snákar, lifandi drekar, augu manna eru ekki tvö talsins; þau eru þrjú, fjögur, fimm. Þau eru eins mörg og þú vilt að þau séu. Posthúmanismi Gucci fylgir þannig „post-truth“ stjórnmálum samtímans, það er að segja þeim sannlíkistímum sem fjallað hefur verið mikið um frá því Trump varð forseti Bandaríkjanna, þar sem realisminn, sannleikurinn og staðreyndirnar eru ekki eins mikilvægar og áður. Ef marka má ritgerð skáldsins Oscars Wildes, „The Decay of Lying“ hefði hann vafalaust orðið hæstánægður með sæborg-sýningu Micheles.

 „Eina sanna fólkið er það sem hefur aldrei verið til og það sem er raunverulega áhugavert við hvert og eitt okkar eru grímurnar sem við klæðumst, ekki raunsæið sem býr að baki þeim“
- Oscar Wilde, The Decay of Lying

Í ritgerðinni fordæmir hann realískar bókmenntir og vill meina að fjölgun staðreynda innan ríkis hins rómantíska, ógni ímyndunarafli og sköpun mannsins. „Ef lífið er spegill konunnar þá er listin sjal hennar.“ Hann segir „góðan listamann búa til persónu sem lífið síðan speglar og margfaldar. Lífið er þannig eini og besti nemandi listarinnar.“ Í lok Orðanna og hlutanna skrifar Foucault: „Maðurinn er dauður.“ Hugmyndin um manninn (og konuna) sem hugsandi veru, sem upplýsta skynsemisveru, dó því að mati Foucaults árið 1966, og er það eitthvað sem kallast á við kenningar pósthúmanisma, þar sem maðurinn er ekki lengur miðja alheims, heldur eru náttúran, dýrin og tæknin jafningjar hans.

A model wears a creation as part of the Gucci women's Fall/Winter 2018-2019 collection, presented during the Milan Fashion Week, in Milan, Italy, Wednesday, Feb. 21, 2018. (AP Photo/Antonio Calanni)
 Mynd: AP

Samkvæmt Gucci virðist maðurinn þó ekki endilega dauður. Hann er nú lífvera sem virðist róa á önnur mið, vera sem reynir nú óðum að brjótast undan rótgrónum einsleitum flokkunarkerfum og hefðum. Vera sem gleymir realismanum um stund, upphefur þess heldur rómantíkina og leyfir eigin ímyndunarafli að ráða för. Svona í anda Donalds Trumps, og Oscars Wildes, en eins og sá síðari segir í áðurnefndri ritgerð „ferðast lífið hraðar en realisminn, og er rómantíkin ávallt á undan lífinu.“