Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rökræddu kirkjuheimsóknir í borgarstjórn

17.12.2014 - 09:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur gera heimsóknir skólabarna til trúfélaga tortryggilegar. Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri Grænna segir heimsóknirnar leyfilegar en trúarinnræting sé það ekki.

Heimsóknir skólabarna til trúfélaga voru til umræðu á borgarstjórnarfundi í gærkvöld. Formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar telur að heimsókn nemenda Langholtsskóla í Langholtsskirkju á aðventunni sé brot á samskiptareglum borgarinnar vegna þess að þar flytur prestur hugvekju. 

Kjartan sagði að heimsóknirnar hefðu verið gerðar tortryggilegar og hann spurði hvort fulltrúar meirihlutans væru ekki sammála um hvort heimsóknir skólanna í kirkjur á aðventunni væru í samræmi við reglur eða ekki. „Þegar virðulegir borgarfulltrúar meirihlutans hamast í þessu máli hvað eftir annað, gera slíkar heimsóknir tortryggilegar þrátt fyrir að það sé full heimild fyrir þeim í þessum reglum, þá hlýtur þetta að leiða til þess að þessir stjórnendir verða hræddir við að fara í slíkar heimsóknir,“ sagði hann. „Kannski er það tilgangur meirihlutans að hleypa málinu í uppnám hvað eftir annað og efna til átaka út í hverfum borgarinnar um þetta mál í þeirri von að skólastjórnendur gefist á endanum upp á þessu.“

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri Grænna, sagði engan vafa um að heimsóknirnar væru leyfilegar en trúarinnræting væri það ekki. „Enginn borgarfulltrúi meirihlutans hefur talað um það að kirkjuferðir samræmist ekki reglunum sem settar hafa verið. Aftur á móti setti formaður mannréttindaráðs spurningamerki við það hvort að hugvekja í kirkju samræmdist þessum reglum.“