Rökleysan er oft brothættari

Mynd: Lilja Birgisdóttir / Lilja Birgisdóttir

Rökleysan er oft brothættari

20.10.2018 - 14:49

Höfundar

„Ég held að ég hafi alltaf fylgt innsæinu og tilfinningum við gerð allra verka,“ segir myndlistarkonan Sara Reil sem opnar nýja sýningu, Sjálfvirk / Automativ, í Kling og Bang í Marshall-húsinu á laugardag. „Ég hef tilhneigingu til að kafa rosalega djúpt í hvert tímabil, en svo klárast það. Þetta eru kannski tímamót til þess að fara fyrir neðan rökhyggjuna og inn í rökleysuna, og hún er oft brothættari og viðkvæmari fyrir mann.“

„Ég tengi dáldið við endurreisnarmennina að því leyti að ég er listamaður í raunheimi, og honum ber að skoða, bæði smáatriðin og stóru atriðin,“ segir Sara og vísar í eldri sýningar þar sem hún hefur meðvitað flokkað og endurraðað hlutum úr náttúrunni. Rannsakað, varpað nýju ljósi og sett í óvænt samhengi. Þessir rannsóknarleiðangrar Söru hafa svo oftast leitt hana á nýjar slóðir, í ný ferðalög sem geta ýmist falist í upplifun á náttúru, tónlist eða verkum annara listamanna og fræðimanna. Það má segja að upphafið að ferðalaginu á bak við þessa nýju sýningu Söru sé að finna í brjósklosi sem var svo slæmt að hún þurfti að leggjast inn á Heilsustofnunina í Hveragerði.

„Þetta er náttúrulega yndislegur staður, einhvers konar spa í elliheimilabúningi. Þú hugleiðir á morgnanna, ferð í sundæfingar og labbar. Ég fór með heyrnartólin í þessar gönguferðir og hlustaði á John Cage og hlustaði á hans nálganir á sína sköpun, sem mér fannst mjög áhrifamiklar. Þessi hugmynd um að það sé ekkert rangt og að þú eigir ekkert að vera að ritskoða og bara leyfa því að koma út, í rauninni þessi klisja listamannsins um að leyfa því bara að mæta. Og svo voru hvíldarstundir þar sem ég teiknaði og hlustaði á tónlist, því ég hvíli ofboðslega vel í teikningu,“ segir Sara og lýsir því hvernig nýr myndheimur hafi opnast undir þessum vinnuaðferðum. „Stundum vinn ég í þögninnni, en hún á það til að byrja að malla einhvers konar hugsanir, sem er fínt, en um leið og hugsunin fer að vera ritstjóri eða skipta sér að því sem er að gerast á blaðinu þá hættir það að vera sjálfvirkt, verður stíft og línan fer að hætta að vera svona eðlileg.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Birgisdóttir

Vinnuaðferðir Söru minna þannig að einhverju leyti á ósjálfráð skrif eða myndverk súrrealistanna, en ólíkt súrrealistunum þá er Sara ekki að reyna að kafa eftir óvæntri merkingu sem gæti leynst í undirdjúpunum. „Ég vil meira fá það beint á blaðið, og ég vil heldur ekki að titlarnir gefi neitt auka lag, þess vegna heita verkin öll stundir með einhverju verkfæri, svo að áhorfandinn geti lesið í skýin, eða séð það sem að sá aðili vill sjá. Mér finnst það vera auka lag í verkinu sjálfu.“

Rætt var við Söru í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.