Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rökkurópera Valdimars

Mynd: Valdimar / Facebook

Rökkurópera Valdimars

29.09.2018 - 11:02

Höfundar

Sitt sýnist hverjum er fjórða plata hljómsveitarinnar Valdimars. Hljóðheimurinn er í senn dökkur, knýjandi og „erfiður“. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Það er eitthvað alíslenskt við Valdimar. Spilverkið, Grafík, Maus, Sálin, Nýdönsk. Bubbi? Mannakorn? Tónlistarsagan er uppfull af sveitum sem eru „hérlendis“ meira en „erlendis“, flytja dægurtónlist sem er ekki endilega hæf til útflutnings en á ríkan stað í hjörtum íslenskra tónlistaráhugamanna.

Valdimar fellur hæglega í þennan flokk. Í gegnum þrjár breiðskífur, Undraland (2010), Um stund (2012) og Batnar útsýnið (2014) hefur hún fest sig í sessi sem gildandi sveit, verið það á tónleikum eða lagasmíðalega séð. Þetta eru allt saman gegnheil verk, innihaldið vandað nýbylgjupopprokk sem minnir á eðalsveitir eins og Elbow og Hjaltalín.

 

Sitt sýnist hverjum er nýjasta plata Valdimars
 Mynd: RÚV
Sitt sýnist hverjum heitir nýjasta plata hljómsveitarinnar Valdimars.

 

Samstarf

Sitt sýnist hverjum er fjórða plata sveitarinnar og var hún unnin í samstarfi við Pétur Ben. Það er hægt að tala um ákveðna línulega þróun á síðustu verkum, sveitin hefur einfaldlega orðið betur samspilandi í gegnum árin, hugmyndir þróaðri og reynsluleysið hverfandi, eðlilega, með hverju árinu sem hefur liðið. Þessi plata er hins vegar nokkuð öðruvísi en það sem á undan hefur komið, sker sig í raun dálítið harkalega frá. Hljóðheimurinn er Valdimars en aldrei hefur hann verið jafn myrkleitinn og þungmeltur. Hljómurinn er t.a.m. dökkur og eiginlega hvass. Ekki umlykjandi, hann potar í þig. Þetta er ekki ósvipað stökkinu sem Hjaltalín tók á milli Terminal og Enter 4. Mér varð líka hugsað til síðpönksveita eins og Joy Division. Opnunarlag Closer, „Atrocity Exhibition“, lag sem bókstaflega ber með sér angist og ákefð og setur tóninn fyrir það sem á eftir kom. „Of seint“, lagið sem opnar þessa plötu, er ekki ósvipað. Kammerpoppsleg mýkt er farin. Lagið er kolsvart og skjannahvítt, undir því flöktandi tónar – nánast „industrial“-legir. Valdimar tónar yfir ákveðinn, og hendir út línum eins og: „Þú hvíslar því / að þú sért þreytt...“. Og í ljós kemur að afsökunin „kom of seint.“ Melankólísk undiralda hefur alltaf fylgt Valdimari en hér er aldan komin upp og hún lemur bátshliðina. Platan er ekki ein myrkrakompa en mörg laganna eru strípuð og köld. Titillagið er nánast bara eitt gítarpikk út í gegn, „Hrafnar“ er ógurlegt, þar sem Valdimar fer á kostum, syngur af tilfinnanlegri ástríðu um hrafna sem læsa klónum í hann.

Fumleysi

Spilamennska og söngur eru með öllu fumlaus. Valdimar er frábær söngvari. Býr yfir fegurð og angist, getur dottið í hálfgerða brjálsemi ef honum sýnist svo, eða leitt framvinduna af melódísku öryggi. Hann er með vald yfir röddinni, og notar það. Það er ekkert augljóst hér, og á einhvern hátt er þessi plata gjöf til þeirra sem fylgt hafa sveitinni frá upphafi. Valdimar spyr: „Ertu til í þetta? Við ætlum að prófa smá snúning ...“ Og það er nú einu sinni svo, að ef það þarf að hafa dálítið fyrir hlutunum, er uppskeran því sællegri. Án efa tilkomumesta verk Valdimars til þessa, og hugsanlega það besta.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Valdimar - Sitt sýnist hverjum