Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rokka til styrktar geðheilbrigði á Austurlandi

09.09.2017 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ungir hljóðfæraleikarar á Austurlandi hafa staðið í stórræðum síðustu mánuði. Þeir fengu til liðs við sig tvo af kraftmestu söngvurum landsins og efna til rokktónleika í kvöld. Markmiðið er að safna fé til að hjálpa ungu fólki að losna við kvíða.

Tónleikarnir verða í Valaskjálf á Egilsstöðum í kvöld klukkan 21 og þegar við kíktum í heimsókn æfði hljómsveitin af krafti. Á tónleikunum verða flutt lög til heiðurs söngvaranum Ronnie James Dio. Hann fór meðal annars fyrir hljómsveitinni Black Sabbath og hefði orðið 75 ára á þessu ári. Markmiðið er að hvetja unga fólkið til dáða. „Í fyrsta lagi erum við að gefa yngri kynslóðinni tækifæri. Meðalaldur hljómsveitarinnar er 25 ár og yngsti meðlimurinn er 14 ára. Um leið erum við að efla grasrótina með þessu,“ segir Bjarni Þór Haraldsson, skipuleggjandi tónleikanna.

Dio var þekktur fyrir kraftmikinn söng og ekki dugði minna en að fá Mattías Matthíasson úr Dúndurfréttum og Stefán Jakobsson úr Dimmu til liðs við sveitina. „Þessi hljómsveit er hörkuþétt, hún er vel æfð og gríðarlega áhugasöm og ég hélt kannski að ég þyrfti mögulega að leggja eitthvað til málanna en hef í rauninni ekki þurft að segja neitt annað en kannski aðeins hægar eða aðeins hraðar, en annars er þetta bara alveg eins og draumur,“ segir Stefán.

Markmiðið er líka að safna fé til að bæta líðan ungs fólks. „Ágóðinn fer í það að afla sálfræðings í fjórðungnum réttinda í því sem heitir Klókir krakkar og er stöðluð kvíðameðferð fyrir börn og ungmenni. Það er mikil eftirspurn eftir þessum úrræðum og við ákváðum að láta aurinn renna í þetta málefni,“ segir Bjarni.

Sum af þeim sem spila á tónleikunum hafa lengi æft og langar að komast í hljómsveit. Elísabet Arna Gunnlaugsdóttir er annar af tveimur trommurum á tónleikunum. „Þetta er bara frábært tækifæri til að fá að sýna sig og það er mjög gaman að fá að taka þátt með svona flottu fólki. Manni finnst maður alltaf verða betri og betri. Það er gaman að fá að taka þátt í svona stóru sjói þegar það eru margir að koma. Og maður verður alltaf pínu stressaður en ég ætla bara að gera mitt besta,“ segir Elísabet Arna. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV