Róhingjar eru hvergi velkomnir

13.09.2017 - 19:30
epaselect epa06200308 A Rohingya girl holds her brother as she arrives in Tuangiri, Teknaf, Bangladesh, 12 September 2017. Many of the Rohingya fleeing the violence in Myanmar had walked for days through hilly path to find refuge in neighbouring
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ekkert lát er á straumi flóttafólks frá Mjanmar yfir til nágrannaríkisins Bangladess. Róhingja-múslimarnir eru velkomnir í hvorugu landinu og mannréttindasamtök segja ofsóknir á hendur þeim þjóðernishreinsanir. Hinn umdeildi leiðtogi Mjanmar ætlar að ávarpa þjóð sína í næstu viku og hyggst þar boða þjóðarsátt.

Eldar loga í þorpinu Shwe Baho í norðurhluta Rakhine-héraðs í Mjanmar. Trúarrit múslima liggja á víð og dreif og íbúarnir eru á bak og burt. 

Stjórnarher Mjanmar segir íbúana sjálfa hafa kveikt í og stungið síðan af. Herinn segist vera að etja við herskáa hreyfingu hryðjuverkamanna úr röðum Róhingja-múslima.

Þeir sem í þorpinu bjuggu hafa aðra sögu að segja.

„Þeir ljúga, þeir ljúga! Þetta er föðuland mitt,“ sagði einn þorpsbúa.

Nota herskáa Róhingja sem átyllu fyrir ofsóknum
Sannarlega finnst dæmi þess að Róhingjarnir láti sverfa til stáls. ARSA er skammstöfun fyrir svokallaðan hjálpræðisher Róhingja-múslima. Herdeildin er fyrst og fremst mönnuð ungum karlmönnum sem vilja réttlæti fyrir kúgaða þjóð sína. Þeir eru þó fáir og stjórnarherinn sakaður um að nota tilvist þeirra sem átyllu fyrir útrýmingu á Róhingja-múslimum.

„Ríkisstjórn Mjanmar segist eltast við herskáar fylkingar sem hafi ráðist á öryggissveitir en okkar niðurstaða er að öryggissveitirnar ráðist á almenna þorpsbúa, þorpsbúa á heimilum sínum og noti til þess alls kyns vopn.“ segir Richard Weir, rannsakandi hjá Alþjóða mannréttindavaktinni.

Löng saga ofsókna
Upphaf átakanna nú má rekja aftur til 25. ágúst síðastliðins þegar hópur Róhingja réðst að varðmönnum við landamæri Bangladess.

Saga ofsókna gegn Róhingjunum er þó umtalsvert lengri. Meirihluti Róhingja eru múslimar og þeir eru um fjögur prósent landsmanna í Mjanmar, þar sem búddatrú er útbreidd. Þar er ferðafrelsi þeirra heft og réttur til menntunar og atvinnu takmarkaður. Þeir fá ekki ríkisborgarararétt í Mjanmar því meirihluti landsmanna telur þá ólöglega innflytjendur frá Bangladess.

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík/RÚV

Og þangað flýja þeir nú í stríðum straumum, en þar bíða síst blíðari móttökur. Yfirvöld í Bangladess hafa gegnum tíðina verið afar treg til að taka við Róhingja-múslimum. Þau segja tilvist þeirra auka glæpatíðni og hrekja ferðamenn frá. Þá bökkuðu stjórnvöld þar í landi í fyrra með umdeild áform um að koma öllum Róhingja múslinum fyrir á afskekktri eyju þar sem flóð eru afar tíð.

Þjóð án ríkisfangs
Alþjóðamannréttindavaktin segir Róhingja eina fjömennustu þjóð án ríkisfangs í heiminum. 

„Þetta ástand virðist skólabókardæmi um þjóðernishreinsanir,“ segir Zeid Ra'ad al-Hussein, yfirmaður mannréttindadeildar Sameinuðu þjóðanna.

Það eru stór orð, enda er hart sótt að friðarverðlaunahafanum Aung San Suu Kyi, leiðtoga Mjanmar, og hún gagnrýnd fyrir að fyrirskipa her sínum ekki að hætta ofbeldinu. Hún boðaði í dag forföll á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í næstu viku vegna ástandsins í heimalandinu. 

Talsmaður hennar upplýsti við sama tilefni að Suu Kyi hyggist ávarpa þjóð sína í næstu viku. Þar muni hún tala fyrir friði og þjóðarsátt. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi