Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Rödd olnbogabarnsins, þjófsins og hórunnar

Mynd: David Wojnarowicz / Wikipedia

Rödd olnbogabarnsins, þjófsins og hórunnar

03.05.2017 - 17:03

Höfundar

Bandaríski listamaðurinn David Wojnarowicz er einn þeirra fjölmörgu sem létust af völdum HIV áður en árangursrík lyf urðu aðgengileg almenningi. Hann er þekktastur fyrir mynd á umslagi smáskífu írsku hljómsveitarinnar U2 við smellinn One, svarthvíta ljósmynd af þremur nautgripum að falla fram af klettabrún, en á seinni árum hafa skrif hans sem vakið mikla athygli.

Bók hans Close To The Knives - A memoir of Disintegration, er safn sjálfsævisögulegra esseyja um erfiða æsku, fátækt og hórdóm á unglingsárum og áhrif alnæmis á sálarlíf Wojnarowicz og hans nánustu. 

,,David Wojnarowicz skilur ævagamla rödd vegfarandans, rödd ferðalangsins, rödd olngbogabarnsins (outcast) þjófsins, hórunnar. Þetta er sams konar rödd má heyra á plágu tímum í skrifum Villons  og Rómarborg á tímum Petroníusar. Takið upp þessa bók og hlustið. ‘’
- William S. Burroughs

Close To The Knives var gefin út árið 1991 og endurútgefin í mars á þessu ári með sérstökum inngangi eftir rithöfundinn Oliviu Laing. Laing er einna þekktust fyrir metsölubók sína The Lonely City: Adventures in the Art of Being Alone en þar kemur Wojnarowicz talsvert við sögu. Skrif Laing hafa endurvakið áhuga á verkum Davids Wojnarowicz, en mögulega einnig fært honum í fyrsta sinn þá viðurkenningu sem hann á skilið.

Wojnarowicz vann með hina ýmsu miðla

Wojnarowicz var fjöllistamaður, vann með hina ýmsu miðla, allt frá graffítí-veggjalist til olíumálverka, allt frá nútímamósaík úr blaðaúrklippum til svarthvítra videoverka sem tekin voru á 8 mm upptökuvél. Allt frá lifandi gjörningum til ritverka, til tónleika með pönkhljómsveit sinni ,,3 Teens Kill 4’’. Hann faldi sig á bakvið ljósmyndavél er hann myndaði jaðra samfélagsins; dragdrottningar, heimilislausa, fíkla, melludólga, og dauðvona alnæmissjúklinga, en hann gat einnig látið mikið á sér bera er hann flutti harðorða, reiða, ádeilugjörninga í formi öskurs fyrir fullu húsi áhorfenda. Í upphafi vann Wojnarowicz helst með sjálfsvitund og kynhneigð í verkum sínum en er alnæmisfaraldurinn fór að herja á samkynhneigða samfélagið, listasamfélagið, og Wojnarowicz horfði á elskhuga og vini falla frá, urðu verkin æ pólitískari, æ sársaukafyllri og reiði í garð ójafnréttis og þöggunar, varð æ meiri.

„Mig langar að kasta upp, því við eigum, hljóðlega og kurteislega, að hreiðra um okkur í drápsvél sem kallast Ameríka, borga skatta sem ýta undir hægt morð á okkur og ég er furðu lostinn yfir því að við hlaupum ekki um strætin óð af blóðþorsta, og að við séum fær um ástúðlega hegðun eftir lífstíð af þessu öllu.“
-David Wojnarowicz, Close To The Knives

Eins og rithöfundurinn Olivia Laing kemur inn á í inngangi sínum að bókinni Close to the Knives þá virka róttæk verk Davids Wojnarowcz sem móteitur við miskunnarlausu stjórnmálaumhverfi nútímans þar sem kynþáttahatur, ótti við samkynhneigð og kynjamisrétti fær að grassera. Close to the Knives var endurútgefin á hárréttum tíma. Árið 2017, árið sem Donald Trump og fylgdarlið hans tók við völdum í Hvíta húsinu.

Lestin á Rás 1 fjallaði í dag ítarlega um listamanninn David Wojnarowicz.