Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Róbert yngsti varaforseti MDE frá upphafi

03.04.2019 - 15:45
Cour plénière
 Mynd: Wikipedia
Róbert Spanó hefur verið kjörinn nýr varaforseti Mannréttindadómstóls Evrópu. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur gegnir þeirri stöðu við dómstólinn í núverandi mynd. Róbert segir þetta mikinn heiður. Grikkinn Lin­os-A­lex­andre Sicili­anos, sem hefur verið varaforseti í tvö ár, var kjörinn forseti dómstólsins. 

Róbert hefur verið dómari við MDE í fimm ár og deildarforseti síðan 2017. Kjör forseta og varaforseta fór fram í Strassborg á mánudag. Róbert er skipaður til þriggja ára. 

Fyrsti íslenski varaforseti MDE í núverandi mynd

Mannréttindadómstóllinn samanstendur af 47 dómurum, einum fyrir hvert þeirra ríkja sem hafa fullgilt Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómarar vinna í fimm deildum, átta til níu í hverri. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur dómari dómstólsins er kjörinn varaforseti síðan hann var stofnaður í núverandi mynd árið 1998 og í annað sinn sem dómari frá Norðurlöndum er kjörinn í embættið. Róbert, sem er fæddur 1972, er yngsti dómari í 60 ára sögu MDE til að vera kjörinn varaforseti. Í tíð eldri dómstólsins, sem starfaði fram að 1998, var Þór Vilhjálmsson varaforseti dómstólsins. Í skriflegu svari til fréttastofu segir Róbert þetta mikinn heiður. 

„Það þarf vart að taka það fram að þetta er mikill heiður fyrir mig persónulega og einnig fyrir Ísland að dómari frá okkar litla landi sé kjörinn í þetta embætti.” 

Nýr forseti MDE kjörinn á næsta ári

Dómstóllinn kýs tvo varaforseta og frá 5. maí munu Róbert og Þjóðverjinn Angelika Nussberger gegna þeim störfum og Grikkinn Linos-Alexander Sicilianos verður þá forseti, en hann hefur verið varaforseti í tvö ár og níu ára skipunartíma hans lýkur á næsta ári. Þá verður ný forseti kjörinn. Varaforsetar MDE standa næst forsetanum og stýra jafnframt deildum dómstólsins ásamt deildarforsetunum þremur. 

Einstakur dómstóll á heimsvísu

Mannréttindadómstóll Evrópu er sá eini sinnar tegundar í heiminum. Dómar hans hafa haft mikil áhrif á þróun landsréttar ríkja Evrópuráðsins í átt að bættri mannréttindavernd og dómar hans eru bindandi fyrir öll aðildarríkin að þjóðarétti.

Róbert hefur víðtæka reynslu af lögfræðistörfum, bæði hérlendis og erlendis. Hann starfaði áður sem lagaprófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands og sem settur umboðsmaður Alþingis um hríð, auk þess að vera formaður rannsóknarnefnda um vistheimili ríksins og Þjóðkirkjuna.