Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Robert Mugabe segir af sér

21.11.2017 - 16:01
President of Zimbabwe Robert Mugabe listens as Prof. Alpha Oumar Konare, chairman of the Commission of the African Union, addresses attendees at the opening ceremony of the 10th Ordinary Session of the Assembly during the African Union Summit in Addis Ab
 Mynd: Wikimedia Commons
Robert Mugabe, leiðtogi Simbabve til 37 ára, hefur sagt af sér forsetaembætti. Forseti þingsins í Harare greindi þingmönnum frá þessu fyrir nokkrum mínútum. Afsögnin tegur gildi þegar í stað. Myndir frá Harare, höfuðborg Simbabve, sýna að mannfjöldi fagnar þar á götum úti.

Mugabe var raunar orðinn valdalaus eftir að herinn í Simbabve svipti hann völdum í síðustu viku og hneppti í stofufangelsi. Stjórnarflokkurinn í landinu, Zanu-PF, hafði einnig svipt hann leiðtogatigninni. Mugabe var gefinn frestur til mánudagsmorguns að segja af sér af fúsum og frjálsum vilja. Þau tímamörk virti hann ekki, þannig að yfirstjórn flokks hans tilkynnti í gær að undirbúningur hæfist að því í þinginu í dag að ákæra hann til embættismissis. Til þess kemur ekki, þar sem Mugabe hefur tekið af skarið og sagt af sér.

Robert Mugabe er orðinn 93 ára. Hann var frelsishetja Simbabve í nýlendustríði gegn Bretum á síðari hluta tuttugustu aldar. Eftir því sem á valdatíma hans leið jókst ógnarstjórn hans og samherja hans og sömuleiðis einstaklega slæm efnahagsstjórn sem leiddi til einhverrar mestu óðaverðbólgu sem sést hefur.

Mikil fagnaðarlæti brutust út í Harare, höfuðborg Simbabve, þegar af því fréttist að Mugabe hefði sagt af sér. Fólk söng og dansaði á götum úti og bílflautur voru þeyttar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV