Rjúpur seldar á 2.500-4.500 krónur stykkið

16.12.2013 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenskar rjúpur ganga kaupum og sölum á verðbilinu 2.500 til 4.500 krónur. Ólöglegt er að selja rjúpur. Rjúpnaskyttur mega aðeins nýta þær í eigin þágu.

Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að rjúpnaskyttur sem náðu að skjóta fugla í haust vel umfram eigin matarþörf selji stykkið á um það bil 3500 krónur að meðalverði.

Haft var samband við nokkra kaupendur og seljendur, meðal annars í gegnum sölusíðuna bland punktur is. Þeir voru sammála um að vinir og kunningjar veiðimanna fái rjúpuna á 2500 krónur, algengast sé að hún sé seld á 3.500 krónur, en verðið geti farið upp í 4.500.

Umhverfisráðherra heimilaði samkvæmt ráðleggingum Náttúrufræðistofnunar að veiða 42 þúsund fugla í haust. Veiði var var leyfð í 12 daga um helgar á tímabilinu 25. október til 17. nóvember. Þetta gerði sex til sjö rjúpur á hvern skráðan veiðimann. En skytturnar eru misgóðar eða heppnar og fyrir jól fer af stað svartur markaður með rjúpur.
Samkvæmt upplýsingum matreiðslumanna má reikna með að meðalrjúpa skili af sér um það bil 150 grömmum af kjöti, í mesta lagi 200 grömmum. Sé hærri talan notuð kostar kílóið af rjúpnabringum því á bilinu 12.500 til 22.500 krónur. Algengasta kílóverð  er 17.500 krónur. Í kjötborðum ýmissa verslana eru nú, eins og undanfarin ár, seldar skoskar rjúpur, sem eru sambærilegar og sú íslenska, þó ekki ekki sé um sömu tegund að ræða. Algengt er að þær kosti um 1.400 krónur stykkið.