Risastórt skref að sátt á vinnumarkaði

22.01.2019 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður VR segir nýjar tillögur um umbætur á húsnæðismarkaði geta leyst húsnæðisvandann til framtíðar. Þær séu stórt skref að sátt á vinnumarkaði. 

Tillögur átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði voru kynntar í dag og voru þær 40 talsins. Meðal tillagna eru að stækka kerfi almennra íbúða, koma á aukinn leiguvernd og lækka byggingarkostnað og stytta byggingartíma.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var hluti af hópnum og segist afar ánægður með tillögurnar sem hafa verið lagðar fram. „Og kemur með raunverulegar lausnir á því að leysa húsnæðisvandann til framtíðar, og það er það sem skiptir máli. Ef það verður farið eftir þessum tillögum og þær verða að veruleika þá mun það hafa raunveruleg áhrif. Það er tekið á ansi mörgum þáttum og vissulega eru þetta margar hugmyndir og tillögur sem koma frá hópnum en þær eru allar mjög framkvæmanlegar og þær skipta allar mjög miklu máli. “

Með tillögunum sé verið að mæta alls kyns hópum, meðal annars lágtekjuhópum og eldri borgurum. Ragnar segist vera bjartsýnn að tillögurnar verði stór hluti af þeim kjaraviðræðum sem eru fram undan. „Ég get allavega sagt það að ef þessar tillögur verða að veruleika þá er alveg ljóst að þetta mun verða risastórt skref í átt að lausn að kjarasamningum.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Kastljósi í kvöld að enn ætti eftir að útfæra mörg atriði en aðal atriðið væri að samstaða hefði náðst um þessar tillögur. „Nú munum við fara yfir allar þessar tillögur, og þær heyra undir mismunandi stofnanir, ráðuneyti ríki sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins, við munum gera áætlanir um það hversu hratt við getum unnið að tillögunum, þannig það er eiginlega næsta skref, það er að fara að vinna úr þessu.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV