Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Risabyssur féllu yfir Marilyn Manson

epa06237223 (FILE) - US musician Marilyn Manson performs at the Rock on the Range Festival in Columbus, Ohio, USA, 15 May 2015. Media reports on 01 October 2017 state that Marilyn Manson has been injured and taken to hopsital after a stge prop collapsed
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Risabyssur féllu yfir Marilyn Manson

02.10.2017 - 14:40

Höfundar

Rokkstirnið Marilyn Manson liggur á sjúkrahúsi eftir slys á tónleikasviði í New York á laugardagskvöld. Var söngvarinn í miðju kafi að flytja smellinn „Sweet Dreams“ þegar stálgrind með áföstum stærðarinnar skammbyssum úr frauðplasti féll ofan á hann, með þeim afleiðingum að hann lá fastur undir.

Atvikið var tekið upp á myndband en þar má sjá hinn fjörtíu og átta ára gamla Manson reyna að klifra upp á stálgrindina, með fyrrgreindum afleiðingum. Lá söngvarinn á sviðinu í 15 mínútur áður en hann var að lokum fluttur út á börum. Nokkur ótti greip um sig meðal áhorfenda, en að sögn sjónarvotta fóru um tíma sögur á kreik um að söngvarinn væri látinn. Fregnir af andlátinu eru þó stórlega ýktar, þó að ekki hafi fengist staðfest hvers eðlis meiðsli söngvarans eru, eða hversu alvarleg.

Ögrandi Antikristur

Marilyn Manson öðlaðist frægð snemma á tíunda áratugnum fyrir ögrandi tónlist og óheflaða framkomu, en ímynd hans gekk að miklu leyti út á að fagna hinu afbrigðilega og finna fegurð og þokka í því sem almennt þykir ógeðslegt. Hann var sömuleiðis vinsæll gestur á síðum slúðurblaðanna og sló sér gjarnan upp með frægum ungstirnum. Smellir á borð við „Antichrist Superstar“ og „Mechanical Animals“ festu hann í sessi sem eina helstu rokkstjörnu áratugarins, en hann lagði sérstaklega upp úr því að hneyksla kristna Bandaríkjamenn, og hlaut mikla umfjöllun fyrir. Hann notaðist gjarnan við Biblíulegar tengingar í tónlistinni (kenndi sig til dæmis við Antikrist) og einnig í hinu sjónræna, td. í ögrandi, klámfengnum og groddalegum tónlistarmyndböndum þar sem Biblíuleg minni og vísanir voru notuð óspart. Hann hefur einnig komið við sögu í heimi kvikmyndanna, en leikstjórinn David Lynch fékk Manson til dæmis í aukahlutverk í kvikmyndinni Lost Highway árið 1997, þar sem hann lék klámstjörnu.

Vinsæll í heimi hip hopsins

Ýmis samtök sem kenndu sig við íhald og almannaheilli vildu banna tónlist hans með öllu og sumum hverjum varð ágengt, en náðu deilurnar um Manson ef til vill hámæli árið 1999, þegar fjöldamorð voru framin í Columbine framhaldsskólanum í Colorado. Þó kom seinna í ljós, að þvert á það sem haldið var fram, voru gerendurnir í ódæðunum ekki aðdáendur Manson eða tónlistar hans. Í seinni tíð hefur Manson hlotið lof úr heldur óvæntri átt, en í heimi hip hopsins hefur hann hlotið náð fyrir augum stórstjarna á borð við Gucci Mane og Rick Ross, sem eru yfirlýstir aðdáendur söngvarans.