Ringulreið á flugvöllum heimsins

28.01.2017 - 20:31
epa05755632 US President Donald Trump looks on before signing Executive Orders in the Hall of Heroes at the Pentagon in Arlington, Virginia, USA, 27 January 2017.  EPA/OLIVIER DOULIERY / POOL
 Mynd: EPA - ABACA POOL
Ringulreið skapaðist víða á flugvöllum heimsins eftir að tilskipun Donald Trump, tók gildi sem lokar landamærum Bandaríkjanna tímabundið fyrir sýrlenskum flóttamönnum og innflytjendum frá tilgreindum löndum þar sem múslimar eru í meirihluta. Talskona landvarnaráðuneytis Bandaríkjanna lýsti því yfir í dag að tilskipunin næði einnig til handhafa græna kortsins og þeirra sem þegar hafa fengið gilda vegabréfsáritun.

Ferðaáætlanir margra fóru gersamlega út um þúfur í dag vegna tilskipunarinnar. Þeir sem höfðu farið í loftið áður en hún tók gildi voru stöðvaðir við komuna til Bandaríkjanna. Öðrum var ekki hleypt um borð í flugvélar þrátt fyrir að ferðalögin hefðu verið skipulögð með löngum fyrirvara.

Þannig varð til að mynda Íraninn Ali Abdi strandaglópur í Dubai, þrátt fyrir að hann væri handhafi græna kortsins og hefði þar af leiðandi varanlegt dvalarleyfi í Bandaríkjunum.

Abdi er doktorsnemi í mannfræði og var á ferðalagi í rannsóknarskyni vegna námsins. Í viðtali við Guardian segist hann óttast að hann komist ekki aftur til Bandaríkjanna til að ljúka náminu og bætir við að hann sé bara einn af þúsundum annarra sem lentir eru í svipaðri stöðu.

Fréttaveitan AFP greinir frá því að fjölskylda frá Írak hafi verið stöðvuð í Cairo í Egyptalandi þegar hún reyndi að komast um borð í flug til New York. Fjölskyldan hafði fengið gildar vegabréfsáritanir, en þrátt fyrir það var þeim vísað frá fluginu til Bandaríkjanna. Þess í stað var þeim flogið til heimalands síns, Írak.

Ekki er vitað með vissu hve margir voru stöðvaðir á flugvöllum heimsins í dag vegna tilskipunarinnar.

Tveir menn frá Írak hafa þegar höfðað mál gegn bandarískum stjórnvöldum og telja það hvorki samræmast löggjöf né stjórnarskrá Bandaríkjanna að stöðva fólk með gilda vegabréfsáritun á flugvöllum með vísan til tilskipunar forseta.

Með tilskipuninni lokast landamæri Bandaríkjanna næstu 90 daga fyrir fólki frá sjö löndum þar sem múslimar eru í meirihluta. Löndin eru Írak, Sýrland, Íran, Súdan, Líbía, Sómalía og Jemen.

Viðbrögð annarra þjóðarleiðtoga við ákvörðun Trump voru almennt neikvæð. Stjórnvöld í Íran hótuðu því að láta hart mæta hörðu og banna sínum eigin þegnum að fara til Bandaríkjanna. Francois Hollande, forseti Frakklands, hvatti Trump til að endurskoða ákvörðun sína og varaði hann við því að koma á verndar- og einangrunarstefnu. Tólf nóbelsverðlaunahafar eru meðal þúsunda sem hafa skrifað undir áskorun til Trump um að draga tilskipunina til baka. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, neitaði hins vegar að gefa upp skoðun sína á tilskipuninni og sagði þess í stað að Bandaríkin bæru sjálf ábyrgð á utanríkisstefnu sinni.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi