Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ríkur vilji til að ná lengri samningum

19.03.2019 - 09:04
Guðlaugar Þór Þórðarson utanríkisráðherra í viðtalið við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur
 Mynd: RÚV
Ísland hefur náð skammtímasamningum við Bretland um viðskipti eftir Brexit. Tilkynnt var um samningana í gær. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að það sé ríkur vilji bæði íslenskra stjórnvalda og breskra að ná samningum til lengri tíma. Guðlaugur sagði í samtali við Morgunútvarpið markmiðið vera að halda samskiptunum eins og þau hafi verið hingað til.

„Það er markmiðið. Við auðvitað ráðum því hins vegar ekki hvernig Bretar og Evrópusambandið semja sín á milli. Þannig að ef það verða til dæmis einhverjar viðskiptahindranir milli ESB og Bretlands þá gæti það haft einhver óbein áhrif á viðskipti Íslendinga, bæði í Bretlandi og Evrópu en vonandi verður það ekki,“ sagði Guðlaugur Þór og bætti við að íslensk stjórnvöld hafi lagt á þetta áherslu í samskiptum við báða aðila.  

„Við erum búin að vera í mjög góðum samskiptum, ekki bara við bresk stjórnvöld heldur líka við Evrópusambandið og EFTA-ríkin. Okkar skilaboð hafa verið frá fyrsta degi að það mun enginn hagnast á viðskiptahindrunum,“ segir Guðlaugur Þór

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV