Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ríkisstjórnin vill ódýrari innfluttan mat

12.01.2017 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ríkisstjórnin hyggst setja neytendur í öndvegi með breytingum á tollkvótum á landbúnaðarafurðum. Það hafi bæði áhrif á verð og úrval. Bændasamtökin óska skýringa.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir, í kaflanum um landbúnaðarmál, að endurskoða þurfi ráðstöfun innflutningskvóta. Engar nánari skýringar fylgja þessu og það er eitt af því sem bændur telja að ný ríkisstjórn þurfi að skýra vel út, segir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna: „Eins og til dæmis tollverndina, við viljum ræða hvað menn eiga við með þessu, varðandi úthlutun tollkvóta og annað, að það er engin launung að tollverndin skiptir íslenskan landbúnað mjög miklu máli. Það varðar að sjálfsögðu hagsmuni hans.“

Lægra verð á tollkvótum

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, kom inn á fyrirhugaðar breytingar á tollkvótum í Kastljósinu í gær: „Nú er að aukast töluvert innflutningur á landbúnaðarvörum vegna samninga sem voru samþykktir í fyrra og munu taka gildi fljótlega á þessu ári. Og það sem menn hafa alltaf verið að gera er að fara í mótvægisaðgerðir. Hvað þýðir mótvægisaðgerðir? Það þýðir að reyna að hækka verðið á móti, draga úr hagræði fyrir neytendur. Nú erum við að snúa þessu við, við erum að setja neytendur í öndvegi þarna. Við erum að segja að við ætlum að horfa á hvernig við úthlutum þessum kvótum. Það sé ekki himinhátt verð á tollkvótunum sem eyðileggi allan haginn af því að vera með innflutning.“

Landbúnaður lúti samkeppnislögmálum

En hvaða afleiðingar gætu þessar breytingar haft? „Þetta stóreykur líka valfrelsi neytenda, þeir fá meira af vörum“. En kemur þetta ekki verr út fyrir bændur? „Það er auðvitað þannig að við erum að tala um það að landbúnaðurinn verði atvinnugrein þar sem venjuleg samkeppnislögmál ríki. Þó þannig að það verður styrktur áfram landbúnaður á Íslandi.“

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV