Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ríkisstjórnin hafi brotið lög

Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, segir ríkisstjórnina hafa brotið lög um þingsköp, með því að bera viðræðuslit við Evrópusambandið ekki undir utanríkismálanefnd. Málinu hafi verið haldið leyndu fyrir nefndinni.

Þetta sagði Össur í samtali við Morgunútgáfuna. 

Hann segir ríkisstjórnina ekki geta litið fram hjá því að þingsályktunartillaga um aðildarviðræður sé í gildi. „Er þá kannski sú ríkisstjórn ekki heldur bundin af þingsályktuninni 1944, sem að fól í sér staðfestingu á stjórnarskrá? Er hún þá kannski ekki heldur bundin af þingsályktun sem að afnám dansk-íslensku sambandslögin?“ spyr Össur.

Ekkert hafi verið minnst á málið á fundi utanríkisnefndar, sem haldinn var í gær. „Þetta er brot á öllum pólitískum hefðum, en það sem að skiptir líka máli, er að þetta er brot á lögum. Hvað sem mönnum finnst um Evrópusambandið, þá er það alveg ljóst að það að afturkalla stöðu Íslands sem umsóknarríkis, afturkalla formlega aðildarviðræðurnar, það er meiriháttar utanríkismál. Og lögin segja alveg skýrt og fortakslaust, að það verður að bera undir utanríkismálanefnd. Í gær var fundur í utanríkismálanefnd, og þar kom fjölmenn sveit úr utanríkisráðuneytinu, en ráðherrann gætti þess vendilega að gera ekki uppiskátt um þetta, eða að efna til samræðu við nefndina. Þannig að þetta er algjörlega skýrt lögbrot, þetta eru myrkraverk, þetta eru lögbrot, þetta er atlaga að fullveldi Íslendinga, og þetta sýnir gunguhátt þeirra.“

Hann segir að þó viðræður hafi verið settar á ís, hafi Ísland enn stöðu aðildarríkis. „Það getur vel verið að það verði þjóðarnauðsyn að ganga í Evrópusambandið síðar meir, þannig að þetta slítur þann möguleika.“