Sjálfstæðisflokkur er með formennsku í sex af átta fastanefndum Alþingis, Viðreisn í einni og Björt framtíð í einni. Þessi niðurstaða liggur nú fyrir eftir nefndafundi dagsins í dag.
Meirihlutinn segist hafa boðið minnihlutanum formennsku í þremur nefndum og inni í því hefði verið að Framsóknarflokkur færi með formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd. Minnihlutinn sætti sig ekki við að meirihlutinn ráðskist með nefndaskipan, með þeirri niðurstöðu að minnihlutinn bauð engan fram.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlað að vera í höndum stjórnarandstöðu
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var stofnuð í kjölfar efnahagshrunsins og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og frá upphafi lagt til að formennska væri í höndum stjórnarandstöðu, til að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Nú er formennska nefndarinnar í höndum Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Birgitta Jónsdóttir gagnrýndi þetta harðlega á Alþingi í morgun. „Á síðasta kjörtímabili þá ákvað stjórnarandstaðan að taka við þessari ábyrgð en nú er það svo út af einhverjum stórfurðulegum vinnubrögðum hér hjá Sjálfstæðisflokknum að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd heyrir ekki lengur undir þann anda sem að lögin og ályktunin var smíðuð um að hér væri alvöru eftirlit með framkvæmdavaldinu undir ábyrgð stjórnarandstöðunnar og það er miður og mjög leitt,“ sagði Birgitta Jónsdóttir.
Þessi gegna nefndarformennsku:
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og ritari flokksins, verður formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verður formaður atvinnuveganefndar.
Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður og varaformaður Viðreisnar, verður formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er formaður fjárlaganefndar.
Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er formaður umhverfisnefndar.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er formaður efnahags- og viðskiptanefndar.